140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að biðja hv. þingmann að hafa stjórn á sér. Hann sleppir sér í hálfgerðu æðiskasti yfir því að ég benti á þær staðreyndir að sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög úti á landi hefðu nýtt sér þau tækifæri sem felast í uppbyggingarstyrkjunum sem við erum að tala um í dag. Þá nánast tryllist hv. þingmaður og talar um að sá sem hér stendur sé að telja fólki trú um eitthvað.

Ég var að spyrja hv. þingmann út í viðhorf hans til þess að sveitarfélög sem þurfa svo sannarlega á öllu að halda sem þau geta nálgast til að efla innviði sína, nýti sér þessa uppbyggingarstyrki og ég fjallaði efnislega um það. Ég rakti nokkrar umsóknir, annars vegar frá sveitarfélögunum fyrir austan Markarfljót og hins vegar af Reykjanesinu þar sem gríðarleg vinna hefur verið lögð í að nýta sér þau tækifæri sem felast í þessu. Ég var ekki að halda nokkrum einasta öðrum hlut fram.

Er ekki í lagi að ræða þetta? Hv. þingmaður tryllist þegar hér er ræddur kjarni málsins en hann ekki spurður af skoðanabróður sínum út í hugrenningar fólksins í Vinstri grænum. Af hverju má ekki ræða kjarna málsins áður en þingmaðurinn nánast sleppir sér? Má bara spyrja hann út í það hvað einhverjum í öðrum flokki finnst? Hvað um aðra þingmenn Framsóknar sem finnst hugsanlega eitthvað allt annað en honum? Látum það liggja á milli hluta, tölum bara um efni málsins.

Hvað er að því að atvinnuþróunarfélög sæki í þessa sjóði eins og aðra sem standa til boða til að efla innviði sína og byggja upp verkefni sem lofa mjög góðu, bæði hvað varðar vísindi, rannsóknir, menntun og aðra uppbyggingu á innviðum samfélags sem verður aldrei endanlega svarað með öðru móti? Byggðastefna er að sjálfsögðu rekin í þennan tíma eins og annan. Samfélagssamdrátturinn á Skaftársvæðinu hófst ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, hann byrjaði fyrir löngu síðan og hefur því miður staðið yfir áratugum saman. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að snúa honum við og það verður ekki gert með einni leið. Hins vegar er mjög jákvætt að fólk beri sig eftir því (Forseti hringir.) sem til boða stendur á hverjum tíma.