140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það var athyglisvert að sjá taugaveiklunina í hv. formanni utanríkismálanefndar er talið barst að því að það mál sem er næst á dagskránni hafi með brögðum verið tekið út úr utanríkismálanefnd, einstaklega athyglisvert, það sýnir að einhver er með svarta samvisku í því máli.

En það er ekki til umræðu hér. Við fjöllum um frumvarp sem snýr að því að íslenska ríkið taki á móti 5 milljörðum frá Evrópusambandinu. Þetta eru háar upphæðir og hv. þm. Jón Bjarnason sagði beinum orðum í dag að hann teldi að um mútur væri að ræða.

Við ræðum fyrra málið á undan hinu síðara því að þingsályktunartillagan sem er á dagskrá á eftir þyrfti að koma á dagskrá þingsins fyrr til að þingið geti aflétt þeirri stjórnskipulegu ábyrgð sem á málinu er. Ég tel að hænan komi á undan egginu þegar verið er að ræða frumvarpið fyrst. Hvað segir þingmaðurinn um það?

Málið lenti í illdeilu í utanríkismálanefnd, getur verið að þess vegna sé það sett á dagskrá fyrst? Auðvitað er það atkvæðagreiðslan sem verður fyrst og síðast að vera í réttri röð en er ekki óeðlilegt að frumvarpið komi á undan þar sem verið er að tala um að taka eigi á móti styrkjunum áður en þingið er búið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á því hvort frumvarpið sé tækt?