140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:42]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kalla einmitt eftir heiðarleika í umræðunni, að menn séu menn til að viðurkenna á hvaða vegferð þeir eru og líka hvað varðar þessa IPA-styrki. Þeir eru aðeins í boði sem aðlögunarstyrkir, annars eru þeir ekki í boði. Þeir sem segja að þetta séu styrkir undir öðrum formerkjum segja ósatt.

Í yfirliti um fyrirkomulag IPA á Íslandi, gefið út fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, er þessu skipulagi lýst og það tíundað að megintegundir verkefna IPA-styrkja á Íslandi eru:

1. Innleiðing reglna og gerða.

2. Styrkja stjórnsýslu.

3. Stofnanauppbygging.

4. Undirbúningur fyrir sjóði í landbúnaði, sjávarútvegi, atvinnu- og byggðamálum.

5. Þýðingarmál.

Þetta er viðurkennt og útgefið. Þess vegna held ég, til að hægt sé að sýna fullkominn heiðarleika í umræðunni, að menn eigi að takast á um þetta. Viljum við taka á móti þróunarstyrkjum til að aðlaga okkur að Evrópusambandinu meðan við teljum okkur enn vera í viðræðum? Einhverjir segja að við séum í samningaviðræðum og einhverjir segja að þær séu á jafnréttisgrundvelli, þ.e. að tveir jafnréttháir aðilar séu að semja, sem er náttúrlega algjör misskilningur því að við erum algjörlega á forsendum Evrópusambandsins í þessu.

Það er þetta sem ég kalla eftir. Þetta eru aðlögunarstyrkir, (Forseti hringir.) settir fram af hálfu Evrópusambandsins til þess og síðan tökumst við á um það.