140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkilegt sem hv. þingmaður kom inn á, þær fréttir frá Bosníu-Hersegóvínu að þar viðurkenni menn beinlínis að styrkirnir séu fyrst og fremst hugsaðir til að smyrja aðildarmaskínuna, til að reyna að kaupa þjóðina til fylgis við Evrópusambandsaðild. Það er mjög sérstakt í ljósi þess að þegar Evrópusambandsmálið var kynnt hér í þinginu þá héldu stjórnarliðar sumir hverjir því meðal annars fram að grundvallaratriði væri að fá samning þannig að þjóðin gæti tekið lýðræðislega og upplýsta ákvörðun.

Er ekki mjög sérstakt og óeðlilegt að Evrópusambandið sé að veita mjög háar fjárhæðir inn í íslenskt samfélag í þeim tilgangi að smyrja, eins og hv. þingmaður sagði, aðildarvélina, kaupa stuðning við Evrópusambandsaðild, í ljósi þess hvernig málið var kynnt? Það er ekki svo að þjóðarvilji sé fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki svo að meiri hluti þingheims vilji ganga í Evrópusambandið því að annar stjórnarflokkurinn hefur sagt að hann vilji ekki í Evrópusambandið en hann vilji fá lýðræðislega niðurstöðu í málið.

Telur hv. þingmaður að þetta sé hluti af lýðræðislegu ferli? Er það mjög lýðræðislegt að Evrópusambandið skuli einhliða veita gríðarlega háar fjárhæðir til fuglatalningar og ýmissa annarra verkefna sem á engan hátt tengjast Evrópusambandsumsókninni? Telur hann eðlilegt að það sé gert og að þessir fjármunir bjóðist eingöngu á meðan umsóknarferlinu stendur en ekki eftir það? Er þetta mjög lýðræðislegt?