140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:59]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er merkilegt sem kemur fram í þessu máli og varðar skýringar á því út á hvað þetta gengur. Það er raunar merkilegt að hæstv. ríkisstjórn Íslands skuli láta bjóða sér að um hana sé notað það heiti sem kemur fram í rammasamningnum þar sem segir að ríkisstjórn Íslands komi fram fyrir hönd Íslands og í þessum samningi sé hún nefnd aðstoðarþegi. Hæstv. aðstoðarþegi er sem sagt í umboði þjóðarinnar að semja við Evrópusambandið, framkvæmdastjórn þess, og gengst við þessu nafni í þeim samningum sem undir heyra. Spurningin er hvort við eigum að fara að taka upp þetta ávarp. Ég mun ekki gera það en þetta segir í töluvert knöppu máli út á hvað þessi umsókn og allt þetta ferli gengur.

Það er raunar skýrt örlítið nánar i undirliggjandi gagni þess frumvarp sem hér liggur fyrir hvað átt er við þegar ríkisstjórn Íslands er nefnd aðstoðarþegi í samningnum. Grunnur þessa samnings er fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og sá grunnur sem þessi aðstoð hvílir á.

Í rammasamningnum milli aðstoðarþegans og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er beinlínis tekið þannig til orða að þetta sé, með leyfi forseta:

„… fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Þarna er undirstrikað út á hvað þessi vegferð gengur. Raunar er tekið undir þetta í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með því frumvarpi sem hér liggur fyrir þar sem segir, með leyfi forseta:

„Markmið aðstoðarinnar er að auðvelda ríkjunum að uppfylla skilyrði aðildar með uppbyggingu stofnana, eflingu milliríkjasamstarfs og styrkingu efnahagslegrar og félagslegrar þróunar sem og byggðaþróunar.“

Hér liggur sem sagt hundurinn grafinn. Í hvoru tveggja, tillögu til þingsályktunar og frumvarpinu og nefndarálitum, er beinlínis játað hver tilgangur þessa verkefnis er og í rauninni viðurkenning á þeirri fullyrðingu sem andstæðingar umsóknarinnar hafa haldið fram. Í þeim málatilbúnaði sem hér liggur fyrir í prentuðum skjölum felst viðurkenning á þeim fullyrðingum sem andstæðingar þessarar aðildar hafa haldið fram að þetta séu aðlögunarviðræður. Þetta er ekki neitt umsóknarferli, það er verið að laga íslenska stjórnkerfið að því kerfi sem Evrópusambandið hefur byggt upp og við því er í sjálfu sér ekkert að segja, þetta er sú vegferð sem fara skal.

Þá er dálítið merkilegt að skoða málið í örlítið stærri heild. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við þetta ferli. Á árunum 2011, 2012 og 2013 eiga þessir styrkir, þessi fjárhagsaðstoð við Ísland, að nema 5 milljörðum kr. Í gögnum þessa máls kemur fram að þegar er búið að setja upp verkefni að andvirði um 2 milljarða ísl. kr. (Gripið fram í.) Í fylgiskjali I með nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar liggur fyrir yfirlit um landsáætlun varðandi þessa fjárhagsaðstoð fyrir árið 2011. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór ágætlega yfir þau verkefni sem undir það heyra, en til viðbótar er líka greint frá — ég fékk það í hendur rétt þegar umræðan var hafin — nokkrum verkefnum sem er landsáætlun eða styrkir, fjárhagsaðstoð, að andvirði 596 millj. kr. sem gilda fyrir árið 2012.

Þessi verkefni eru af ýmsum toga. Sum hver ganga eftir hvort tveggja í landsáætluninni 2011 og síðan inn í áætlunina 2012. Þar má sérstaklega nefna tvö verkefni, Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins og Hagáætlanir og hagtölur. En það sem vekur mann aðeins til umhugsunar er að hér er verið að leggja fram frumvarp til breytinga á skattalögum eða sérstakt frumvarp um sköttun á þessu. Því er ætlað að taka gildi 1. júlí 2012. Á þá að skattleggja þau verkefni sem unnin voru á árunum 2010 og 2011 eftir sömu lögum, er verið að ræða það? Ætla menn sem sagt að fara að skatta aftur fyrir sig? Ég sé ekki hvernig þeir ætla að gera það ef þegar er búið að ráðstafa einhverjum þessara styrkja. Væntanlega á þetta frumvarp um skattleysið að gilda um það sem þegar hefur verið unnið og ef greiddur hefur verið af því skattur ætla menn þá að fella hann niður og endurgreiða hann eða var þetta unnið fyrrum með þeim hætti að engar skattgreiðslur voru inntar af hendi og á hvaða heimildum byggði þá það verklag?

Þetta frumvarp kemur fram fyrst núna, kemur rúmu hálfu ári eftir að rammasamningurinn var gerður milli aðstoðarþegans og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Og það er vitað að áður en þetta verður að lögum og áður en þetta kemur fram var farið að veita viðtöku svokölluðum IPA-styrkjum. Hvernig var farið með skattgreiðslur vegna þeirra? Það væri fróðlegt að vita það og fá upplýsingar frá framsögumanni málsins hvernig hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur rannsakað það mál og skyggnst um þær gáttir sem þar þarf um að véla. — Hér gengur hv. formaður nefndarinnar í salinn og ég ítreka spurningu mína: Hvernig verður farið með skattgreiðslur vegna verkefna sem þegar hafa verið unnin, var greiddur af þeim skattur eða á að fella niður skattgreiðslur sem þessu frumvarpi er ætlað að afnema? Það væri fróðlegt að heyra frá hv. formanni hvernig fara á með þær greiðslur sem þegar hafa legið fyrir.

Það liggur fyrir að unnið var með þessa IPA-styrki á árinu 2011. Það er raunar mjög sérkennilegt að leggja saman þær fjárhæðir sem hér um ræðir. Mig minnir að við fjáraukalagagerð fyrir árið 2011 hafi komið um 300 millj. kr. aukafjárveiting vegna þessara styrkja, tekið inn í tekjuhlutann 300 millj. kr. Hér erum við hins vegar upplýst um það samkvæmt landsáætlun sem er fyrir IPA-styrkina fyrir árið 2011 að þau verkefni sem þar eru upp talin nema að andvirði um 11 millj. evra eða sem nemur um 1,5–1,8 milljörðum kr. sem stemmir ekki við þær 300 millj. kr. sem settar voru inn í fjáraukalögin fyrir árið 2011. Það er eitthvert ósamræmi í þeim fjárhæðum sem hér um ræðir og er í rauninni að mínu mati í takt við það með hvaða hætti hefur þurft að toga út upplýsingar um þessa svokölluðu IPA-styrki, en allt frá því að við byrjuðum að spyrjast fyrir um það í fjárlaganefnd hvernig þessu máli væri háttað hefur gengið illa að fá upplýsingarnar fram. Þetta kemur hins vegar fram núna, eins og stimplunin er á fylgiskjali I í því nefndaráliti sem ég vitnaði til áðan og er komudagur þessa erindis til Alþingis 20. febrúar 2012, sem er allmörgum mánuðum eftir að fjáraukalögin fyrir árið 2011 voru samþykkt.

Þarna eru að minnsta kosti tvær grundvallarspurningar sem mér finnst full þörf á að nefndin skoði milli umræðna, annars vegar hvernig þetta stemmir, þær fjárhæðir sem eru í landsáætluninni fyrir árið 2011 upp á 1,5–1,8 milljarða kr. og hins vegar sú 300 millj. kr. fjáraukalagasamþykkt sem gerð var, vænti ég, í desember 2011. Það er því margt í þessu sem að minni hyggju veldur því að við þurfum að rýna þetta örlítið betur en manni birtist í nefndarálitum, í það minnsta væri mjög æskilegt að fá svör við þeim spurningum sem ég hef borið upp hér.

Ég reyni að halda þessum tveimur málum aðskildum, annars vegar frumvarpi til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld og hins vegar þeirri tillögu til þingsályktunar sem kemur síðar til afgreiðslu og umræðu. Ég hefði raunar talið að það væri eðlilegri framgangsmáti að taka fyrst hinn svokallaða rammasamning til afgreiðslu, klára hann áður en menn færu að setja sérstök lög um frávik frá sköttum og gjöldum vegna styrkja sem stöfuðu af samningi sem yrði gerður. En menn gefa sér það greinilega að þeir styrkir sem hafa komið inn í íslenskan fjárhag í gegnum íslenska ríkissjóðinn á fjárlögum gangi eftir með þeim hætti, því að þeir eru væntanlega greiddir á grunni þess rammasamnings sem aðstoðarþeginn, ríkisstjórn Íslands, gerir við framkvæmdastjórnina og væntanlega verður meðferð þeirra, alla vega á árinu 2012, á grunni þeirra laga sem sett verða ef þetta frumvarp verður að lögum.

Raunar er staðan mjög einkennileg varðandi þetta frumvarp að því leyti að það liggur fyrir í fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2012 sérstaklega merkt fjárveiting að fjárhæð 596 millj. kr. og þingmenn eru í rauninni settir í algjörlega vonlausa stöðu eðli málsins samkvæmt við að gera einhverjar breytingar á því og hafa þar af leiðandi tæpast annan kost en að staðfesta með einhverjum hætti þá gjörð sem þegar hefur átt sér stað á árinu 2011 og væntanlega á fyrstu mánuðum þessa árs, 2012. Það verður satt að segja að gera alvarlegar athugasemdir við það verklag að búa til lagaumgjörðina löngu eftir að byrjað er að vinna eftir þeim styrkjum sem hér er ætlunin að fá og þeirri fjárhagsaðstoð sem Evrópusambandið veitir af rausnarskap sínum þeim aðila sem í rammasamningnum er nefndur aðstoðarþegi, sem er hæstv. ríkisstjórn Íslands.

Rædd hafa verið, og það kemur fram í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og raunar er það orðað líka í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, þau atriði sem lúta að samkeppnisstöðu innlendra söluaðila samanborið við erlenda aðila. Það er eðlilegt að sú umræða komi upp, sérstaklega þegar þess er gætt sem kemur fram í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins sem lýtur að niðurfellingu aðflutningsgjalda, undanþágu frá virðisaukaskatti og síðan undanþágum frá tekjuskatti og útsvari eða staðgreiðslunni.

Hvor tveggja nefndarálitin reyna að taka aðeins á þeim spurningum sem af þessu leiða og í áliti meiri hlutans kemur fram, með leyfi forseta:

„Fram kom að þessi sjónarmið hefðu verið rædd við undirbúning frumvarpsins og að mat fjármálaráðuneytisins hefði verið að of viðurhlutamikið væri að ákvarða andlag endurgreiðslna í skattframkvæmd vegna vöru sem seld væri innan lands. Þá væru skilyrði þess að vera ESB-verktaki almenn og hlutlæg með tilliti til heimilisfesti eða fastrar starfsstöðvar umsækjanda.“

Þetta er svar frumvarpsflytjenda við þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við þessa mismunandi samkeppnisstöðu og ég verð að játa það, forseti, að þetta þykir mér ekki mjög skýrt svar varðandi þá grundvallarspurningu sem innlendir söluaðilar hljóta að bera fram þegar þeir keppa við erlenda kollega sína sem njóta þeirra fríðinda sem felast í þeim frávikum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar vill gera á lögum um skatta og gjöld vegna þeirrar fjárhagsaðstoðar sem hér er undir.

Fylgiskjal II með nefndaráliti minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd er álit og umsögn Félags löggiltra endurskoðenda um frumvarpið. Þar er sérstaklega drepið á þau sjónarmið sem ég nefndi hér varðandi 3. og 4. gr. frumvarpsins. Félag löggiltra endurskoðenda gerir verulegar athugasemdir við þau ákvæði sem sett eru inn í frumvarpið og hafa við þetta allnokkrar athugasemdir. Það kemur fram varðandi 3. og 4. gr. að það er álit Félags löggiltra endurskoðenda, stjórnar þess, sem Sigurður Bjarnþórsson framkvæmdastjóri undirritar fyrir hönd þeirra, að þau ákvæði sem þar er að finna veki upp spurningar um samkeppnisstöðu þeirra aðila sem veita sambærilega þjónustu og ESB-verktakar. En ég sé ekki með neinum hætti að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar nálgist þau sjónarmið eða reyni með nokkrum hætti að bregðast við þeim.

Sömuleiðis gerir Félag löggiltra endurskoðenda athugasemdir við 5. gr. þar sem þeir nefna í umsögn sinni að eins og greinin hljóðar megi skilja hana svo að það geti verið hvati að ráða fremur erlenda aðila en innlenda sem ESB-verktaka þar sem staða erlenda aðilans sé einfaldlega þannig að hann þarf ekki að greiða tekjuskatt af tekjum sínum en innlendi aðilinn þarf hins vegar að gera það.

Sömuleiðis er sú athugasemd sem kemur fram í lok umsagnar Félags löggiltra endurskoðenda sérstaklega athyglisverð. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð af þessu frumvarpi að fylgt sé þeirri kröfu að IPA-styrkir skuli renna óskiptir til verkefnisins, þ.e. undanþegnir öllum sköttum, þar sem innlendum aðilum er sinna verkefni af þessum toga er gert að greiða tolla og vörugjöld (af vörum sem þeir flytja ekki sjálfir inn) og tekjuskatt. Slíkt veikir samkeppnisstöðu innlendra aðila.“

Þetta er hárrétt. Það kann vel að vera að erfitt sé að mæla gegn því að 5 milljarða styrkir komi til greiðslu inn í ýmiss konar starfsemi á Íslandi undir þessum skilmálum. Það er hins vegar ekki erfitt að mínu mati að mæla gegn því máli sem hér liggur fyrir, ekki síst í ljósi þess hvernig tilgangur þessa máls er falinn í öllum málatilbúnaði þeirra sem að því standa. Þeir hafa hingað til neitað að viðurkenna þær staðreyndir sem við blasa í umræðum um málið en lauma þessu þess í stað hér inn í texta. Ég gat um það áðan að meginatriði þessa máls alls er að búa úr garði fjárhagsaðstoð til þess að gera pólitískar og efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur, eins og sagt er í gögnum þessa máls, í því skyni að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Þá á bara að segja það og viðurkenna það í umræðu en þverskallast ekki við og reyna að láta í veðri vaka að svo sé ekki.

Það segir einhvers staðar í gögnum málsins að ekki sé ætlunin að búa til einhverjar sérstakar stofnanir um einstök verkefni. Þó kemur fram hér í einu verkefni sem er á landsáætluninni fyrir árið 2011 tæknilegur stuðningur við NIPAC-skrifstofuna og óráðstafað fé. Þar er viðurkennt að um er að ræða skrifstofu í utanríkisráðuneytinu sem á að sjá um alla umsýslu um þetta og greiðslan til þeirrar skrifstofu og það sem á að renna í gegn eru 1,5 millj. evra sem er allveruleg upphæð. Ég sé ekki betur en þessi NIPAC-skrifstofa sé ígildi stofnunar í texta í gögnum málsins sem hér liggja fyrir þó að menn vilji horfast í augu við það.