140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:24]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er hárrétt hjá hv. þingmanni að skilin eru mjög óljós þegar um slík samstarfsverkefni er að ræða.

Hv. þingmaður kom líka inn á til hvers ætti að nota þá styrki. Við höfum lýst því yfir að við séum ekki í aðlögunarferli heldur í umsóknarferli en samt tökum við við aðlögunarstyrkjum. Embættismenn sem skrifuðu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra vissu að það þýddi ekkert fyrir þá að vera að segja eitthvað annað en sannleikann í þeim efnum. Ég vitna í skýrslu utanríkisráðherra á bls. 35 þar sem hann segir um IPA-styrkina að landsáætlanir skuli gerðar fyrir árin 2011, 2012 og 2013. IPA-styrkirnir verða veittir til að undirbúa þátttöku í stoðkerfissjóðum árið 2012 og til uppbyggingar stofnana árið 2013. Þar eru menn alveg með það á hreinu að IPA-styrkirnir eru til þess að laga bæði stjórnsýslu og stofnanir Íslendinga að Evrópusambandinu.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir því á þingi að ákveðnir pólitískir aðilar hafna því og reyna enn að beita þeim blekkingum að þetta séu ekki aðlögunarstyrkir. Ég vil því enn spyrja hv. þingmann: Hvernig var kynningin — ég veit ekki hvort hv. þingmaður er í efnahags- og viðskiptanefnd (Gripið fram í.) en hv. þingmaður er mjög kunnugur í þessu. (Forseti hringir.) Hér stendur klárlega að IPA-styrkirnir séu ætlaðir til aðlögunarverkefna og til að undirbúa umsóknarlandið til að yfirtaka regluverk Evrópusambandsins.