140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr hvernig þessum styrkjum sé skipt. Það er svo merkilegt þegar maður rýnir aðeins í þetta og leggur þetta aðeins saman að þarna er um að ræða styrki að andvirði 5 milljarða kr. sem eiga að greiðast á þremur árum, 2011, 2012 og 2013. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir eru styrkir að fjárhæð 2 milljarðar veittir á árunum 2011 og 2012. Með öðrum orðum, árið 2013 á að verja 3 milljörðum kr., sem sagt hærri fjárhæð en búið er að verja hin tvö árin samanlagt, í að byggja upp stofnanaþjónustu ríkisins.

Ef allt gengur að óskum hæstv. aðstoðarþega, ríkisstjórnar Íslands, verður kosningaár árið 2013. Hluti af þeim kosningum verða átök um Evrópusambandsaðildarumsóknina sem staðfest er í þeim gögnum sem liggja fyrir þannig að það er augljóst hvernig málatilbúnaðurinn er og raunar ótrúlegt að horfa til þess í ljósi fyrri yfirlýsinga frambjóðenda og þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er raunar með ólíkindum að sá þingflokkur skuli hafa látið þessa áætlun ganga í gegn, að hún skuli hafa verið lögð fram með stuðningi hans í þinginu. Það er ótrúlegt að horfa til þess nema menn vænti þess að fá einhverja fjárhagsaðstoð á árinu 2013 til þess að réttlæta þá stöðu og þann málatilbúnað sem sá annars ágæti flokkur er dottinn ofan í.