140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni þær tölur sem hér er um að ræða, þar á meðal það sem er í fjárlögum þessa árs, 596 millj. kr. Þingmaðurinn talaði líka um ósamræmi í fjáraukalögum, ef ég heyrði rétt. Ég náði því reyndar ekki alveg sem hv. þingmaður talaði um þarna. Mig langar því að biðja hann í fyrra andsvari sínu að fara aðeins betur yfir það ósamræmi sem hann nefndi í ræðu sinni áðan þannig að ekki fari milli mála hvað hv. þingmaður átti við þar. (Gripið fram í.)

Það kann að vera ósanngjarnt að spyrja hv. þingmann um undanþágur þær sem hér er verið að veita, hvort þær geti talist eðlilegar. Er eðlilegt að veita ákveðnum aðilum í samkeppnisumhverfi, sem á nú að vera við lýði á Íslandi, einhvers konar undanþágu frá sköttum, tekjuskatti og einhverju slíku, eins og hugmyndin er hér, ekki síst í ljósi þess að sérstaklega er tekið fram að aðilar sem eru með lögheimili eða sem búa á Íslandi njóti ekki þessara undanþágna? Er eðlilegt að veita slíkar undanþágur jafnvel þó að hér sé verið að vinna að verkefnum fyrir Evrópusambandið?

Ég legg hér fram tvær spurningar, annars vegar varðandi þessar undanþágur og hins vegar um það ósamræmi sem hv. þingmaður nefndi áðan varðandi þær tölur og þá fjármuni sem haldið er á lofti og við sjáum í pappírum tengdum þessum verkefnum.