140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að almennir þingmenn séu vart dómbærir á hvort eðlilegt sé að veita svona undanþágur vegna þess að við höfum ekki þær lýsingar á verkefnum sem eðlilegt getur talist að liggi fyrir þegar ákvarðanir á svo stórum skala eru teknar varðandi frávik frá skattalögum. Mér finnst málið illa undirbúið og ég reiði mig á að þær athugasemdir sem Félag löggiltra endurskoðenda hefur gert. Félagið hefur verulegar athugasemdir við þennan þátt málsins og ég deili þeim sjónarmiðum að það veki upp verulegar spurningar.

Varðandi ósamræmið í þessu þá kom fram fjáraukalagatillaga á árinu 2011 sem samþykkt var í nóvember, desember upp á 300 millj. kr. Á fjárlögum ársins 2012 eru 596 millj. kr. Rétt tæpum 900 millj. kr. er sem sagt varið til þessara verkefna. Fyrir liggur í gögnum málsins að samkvæmt landsáætlun fyrir árið 2011 fara einhvers staðar á bilinu 1,5–2 milljarðar kr. í verkefni og síðan fara 596 millj. kr. í landsáætlun fyrir árið 2012, þetta eru rúmir 2 milljarðar þannig að þarna á milli eru 1.100 millj. kr. sem eru óútskýrðar. Ég spurði líka í ræðu minni áðan: Ef þetta frumvarp verður að lögum, hvernig ætla þeir þá að beita þeim lögum á þau verkefni sem þegar eru komin í vinnslu með sínum útgjöldum og öðru því um líku? Það er óútskýrt og hlýtur að vekja upp spurningar sem menn krefja nefndina og (Forseti hringir.) tillöguflutningsmenn svara við.