140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru margir þættir í sambandi við þetta mál sem krefjast skoðunar, bæði við það frumvarp sem liggur fyrir og þá þingsályktunartillögu sem við munum taka til við að ræða þegar þessu máli er lokið. Hægt er annars vegar að nálgast þetta sem tæknilegt frumvarp og ræða um það á þeim forsendum og hins vegar er um að ræða stórpólitískt mál. Það skýrir hvers vegna margir þingmenn hafa talið ástæðu til að taka til máls í dag og fleiri munu vafalaust bætast við. Það er hinn pólitíski vinkill á málinu sem er miklu stærri en það sem lýtur að efni frumvarpsins sem slíks.

Ég þarf ekki að nefna það eða fara um það mörgum orðum, hæstv. forseti, að þegar Evrópusambandsumsókn komst á dagskrá hér eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum vorið 2009 var ein af gulrótunum sem veifað var framan í þjóð og þing sú að með aðildarumsókn ættum við rétt á alls konar styrkjum og fjárhagslegri fyrirgreiðslu. Má auðveldlega fletta því upp í þingræðum og greinargerðum frá þeim tíma þar sem verið var að veifa þessu sem gulrótum, það væri svo mikilvægt að sækja um því að það gæfi svo mikla kosti á að sækja styrki til Evrópusambandsins. Öllum sjónarmiðum um það að kostnaður væri fylgjandi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu var svarað með því að á móti væru svo miklir peningar sem gætu komið frá sambandinu til okkar.

Það þarf því ekki að koma á óvart að farið sé fram með þessum hætti í málinu. Það þarf ekki að koma á óvart að hingað komi þingmál þar sem búið er þannig um hnúta að hægt verði að taka við þeim styrkjum sem tengjast aðildarumsókninni við Evrópusambandið. En um leið þarf engan að undra að þeir sem hafa haft miklar efasemdir og verið andvígir aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu spyrji ákveðinna spurninga í sambandi við málið sem er í svo nánu sambandi við aðildar- eða aðlögunarferlið. Mönnum þarf þar af leiðandi heldur ekki að koma á óvart sú andstaða sem hefur komið fram í þinginu og í nefndum þingsins við þessi tvö þingmál sem eru auðvitað tvær hliðar á sama peningi.

Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna fyrst að stóra spurningin sem menn þurfa að spyrja í þessu sambandi er sú hvort mönnum finnist við hæfi, jákvætt og æskilegt að taka við fjárframlögum frá erlendu ríkjasambandi sem við á margan hátt eigum í átakamiklu sambandi við. Þetta er ákveðin grundvallarspurning sem við þurfum að spyrja. Sumir kunna að segja: Það er sama hvaðan gott kemur. Aðrir kunna að segja: Viljum við skuldbinda okkur þessu sambandi sem við eigum í hörðum deilum við sem varða efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar sem eru miklu meiri en þeir sem tengjast þessum styrkjum? Það er ein hliðin.

Önnur hliðin á þessu er sú og spurning sem menn þurfa að spyrja er hvort menn vilja taka við styrkjum sem hafa þann beina tilgang, þann yfirlýsta tilgang að undirbúa okkur undir aðild að Evrópusambandinu, því að það er alveg skýrt í þeim samningum og þeim reglum sem að baki búa og liggja hér fyrir að þessir styrkir eru veittir til þess að stuðla að aðlögun Íslands, íslensks stjórnkerfis, að Evrópusambandinu og undirbúa aðild. Fyrir þá sem eru andvígir aðild að Evrópusambandinu og líka fyrir þá sem segjast vera andvígir aðild að Evrópusambandinu, eins og sumir í hv. stjórnarliði gera, hlýtur það að vera veruleg spurning hvort menn vilja taka við styrkjum sem hafa þann tilgang. Eða er það svo, hæstv. forseti, að í ríkisstjórnarliðinu, þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna, sé fólk sem ætlar sér að greiða atkvæði gegn aðild okkar að Evrópusambandinu en sér ekkert athugavert við að þiggja styrki sem hafa það beinlínis að tilgangi að undirbúa okkur undir aðild? Finnst mönnum það smekklegt, finnst mönnum það eðlilegt? Og segja: Hér á ég kost á styrkjum sem eru fyrir þá sem undirbúa sig undir aðild að Evrópusambandinu, ég ætla að taka við þeim styrkjum en um leið segi ég nei við aðild að Evrópusambandinu. Er það svo?

Þetta hefur í amerískum bíómyndum verið kallað að taka peninginn og hlaupa burt og þykir ekki mjög smekklegt í siðaðra manna samskiptum, (Gripið fram í.) að vera meðvitað og vísvitandi að taka við styrkjum sem hafa ákveðinn tilgang, yfirlýstan tilgang, að undirbúa okkur undir aðild að Evrópusambandinu, en ætla sér svo ekkert með aðildina. Er það þannig sem annar ríkisstjórnarflokkurinn hugsar, er það svo?

Um hinn ríkisstjórnarflokkinn þarf svo sem ekki að hafa mörg orð. Allir vita að Samfylkingin hefur lengi stefnt að aðild Íslands að Evrópusambandinu og sér ekkert athugavert við öll þau skref sem tengjast því. En það er meiri spurning hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð nálgast þetta mál. Ég held að menn hljóti annaðhvort að vera að sýna tvöfeldni gagnvart þjóðinni eða gagnvart Evrópusambandinu. Mér er auðvitað annara um þjóðina í því sambandi en Evrópusambandið, en það er annað hvort á ferðinni. Menn meina annaðhvort það sem þeir segja um það að þeir vilji ekki að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, og þá taka menn ekki við svona styrkjum, eða þá að menn ganga bara hreint til verks og segja: Ja, ég ætla mér ekkert með aðild að Evrópusambandinu en ég tek samt við peningum sem tengjast undirbúningi aðildar. Í þessu er afskaplega falskur tónn, hæstv. forseti.

Það eru fleiri þættir í þessu sambandi sem vert er að nefna. Hér hefur verið vikið að því í umræðum fram til þessa að mörg þau verkefni sem greinilega er ætlunin að styrkja með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir virðast þegar grannt er skoðað hafa harla litla tengingu við aðild okkar að Evrópusambandinu. Það er víða ansi langt seilst og aðrir hv. þingmenn hafa nefnt dæmi um það. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig stendur þá á því að þessir styrkir eru tengdir málinu? Við vitum það frá öðrum löndum að svona styrkir, t.d. í Eystrasaltslöndunum, hafa verið notaðir til þess að kaupa stuðning á ákveðnum svæðum, í ákveðnum byggðarlögum, við Evrópusambandið. Það hefur verið talið að það bæti ímynd Evrópusambandsins að peningar komi frá Brussel til hinna og þessara jákvæðra verkefna. Og ég spyr: Er einhver munur á því sem við erum með hér í höndunum og slíkum tilvikum? Og ég spyr enn: Finnst mönnum það smekklegt, finnst mönnum það eðlilegt? (Gripið fram í: … meiri trú á ESB heldur en íslensku þjóðinni.)

Þingmaðurinn sem hér stendur hefur ekkert rosalega mikla trú á ESB og þingmaðurinn sem hér stendur er ekki þeirrar skoðunar að ESB sé að veita þessa styrki í góðgerðarskyni. (Gripið fram í: … láta þjóðina …) Ég er sannfærður um að þjóðin lætur ekki kaupa sig en ég er sannfærður um að verið er að gera tilraun til þess. Verið er að gera tilraun til þess og því mótmæli ég.

Ef við horfum aðeins á þetta mál, það skattamál sem hér er til umfjöllunar sérstaklega, þá eru líka á því gallar sem við þurfum að fara yfir og ræða. Hér hefur verið vísað til ágætrar umsagnar Félags löggiltra endurskoðenda sem reyndi að nálgast málið mjög þröngt og tæknilega en finnur engu að síður marga galla á frumvarpinu. Fleiri aðilar hafa komið fram með athugasemdir við það og er þeirra að nokkru leyti getið í þeim nefndarálitum sem liggja fyrir. En eins og fram hefur komið í umræðunni eru vandamál sem tengjast frumvarpinu, jafnvel þó að menn sleppi hinum stóru siðferðislegu spurningum, sleppi því að spyrja hvort við eigum yfir höfuð að taka við þessum styrkjum eða ekki, þá eru tæknileg vandamál sem fylgja því ef við ætlum að samþykkja frumvarpið.

Í fyrsta lagi eru margar skilgreiningar frekar óljósar í frumvarpinu. Það er óljóst að mörgu leyti hverjir geta verið undanþegnir skattfrelsi samkvæmt þessum ákvæðum og það er eins óljóst hvernig farið verður með, eins og nefnt hefur verið í umræðunni, blandaða starfsemi sem að sumu leyti byggir á þessum styrkjum og að sumu leyti ekki. Einnig hefur verið bent á mismunun sem í þessu felst og ætla ég ekki að fara öðrum orðum um það. En varðandi þá tæknilegu annmarka á frumvarpinu, óskýrleika í sumum efnum og mismununarþáttinn verður að segjast eins og er að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem fjallar um þetta mál í nefndaráliti sínu, hefur að mínu mati ekki gert neina tilraun til að eyða óvissu, skýra ákvæði eða gera frumvarpið betur úr garði en það kom úr fjármálaráðuneytinu.

Ég á ekki sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en ég tel að það væri lágmarkskrafa sem hægt væri að gera til þeirrar ágætu nefndar að hún snurfusaði það til og lagfærði annmarka, t.d. í þeim anda sem Félag löggiltra endurskoðenda bendir á, svo að auðveldara verði að beita þessum ákvæðum ef til þess kemur þannig að það verði ekki í jafnríkum mæli og nú lítur út fyrir háð mati, mér liggur við að segja geðþóttamati skattyfirvalda á hverjum stað og hverjum tíma hvernig farið verður með skattgreiðslur í þessu sambandi.

Þegar bent er á af sérfróðum aðilum að hér sé um að ræða óskýr ákvæði sem erfitt geti reynst að framkvæma, erfitt geti reynst að túlka, nægir mér ekki það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans þar sem þessum athugasemdum er svarað með þeim hætti að á móti sé bent á að það liggi í hlutarins eðli að skattyfirvöldum sé oft á tíðum eftirlátið að skýra ýmis hugtök í skattframkvæmd. Mér finnst þetta ekki fullnægjandi. Skattalög verða að vera býsna skýr, þingmál sem varða skattalög verða að vera skýr. Ákvæði skattalaga, sérstaklega viðkvæm ákvæði sem fela í sér skattundanþágu, verða að vera býsna skýr, bæði sem leiðbeining fyrir skattyfirvöld sem þurfa að framfylgja þeim en líka fyrir þá aðila í þjóðfélaginu sem þurfa að fara eftir þeim. Það getur skapað mikil vandamál ef menn eiga í erfiðleikum með að túlka ákvæðin eða túlka þau hver með sínum hætti og þurfa að bíða mánuðum eða missirum saman eftir úrskurði skattyfirvalda eða jafnvel dómstóla til að fá úr því skorið hvað er réttur skilningur og hvað ekki.

Ég lýsi efasemdum um málið í fyrsta lagi út frá þessum grundvallarforsendum. Ég er ekki stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég er ekki stuðningsmaður þess að við séum með aðildarumsóknina í gangi. Þar af leiðandi er mjög auðvelt fyrir mig að leggjast gegn því að Ísland taki við styrkjum sem beinlínis eru til þess fallnir að undirbúa okkur undir aðild. Mér finnst afar auðvelt að taka afstöðu á þeim grundvallarforsendum og ég hefði haldið að í hópi andstæðinga Evrópusambandsins hér á þessu þingi, ég tala nú ekki um í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, ætti að vera auðvelt að taka sambærilega afstöðu. Mér finnst það ekki smekklegt, svo ekki sé meira sagt, ef menn ganga beinlínis til þess verks með opin augu að taka við styrkjum sem hafa það hlutverk að undirbúa aðild en ætla sér síðan ekkert að verða aðilar. Mér finnst það vera, ég leyfi mér að segja lítilmannlegt og ekki sæmandi sjálfstæðri þjóð.

Ef sú staða kemur upp að hér í þinginu sé vilji til þess að samþykkja þær skattundanþágur sem felast í frumvarpinu og tengjast aðildarferlinu með þessum hætti er lágmarkskrafa, finnst mér, að þannig sé um hnútana búið af hálfu löggjafans að ákvæðin séu skýr, undanþágurnar séu skýrar, að menn viti að hverju þeir ganga, bæði þeir sem hugsanlega vilja gerast verktakar eða nýta sér þessi ákvæði með einhverjum hætti, innlendar stofnanir og erlendir samstarfsaðilar og aðrir að þeir viti nokkurn veginn hvernig þetta á að líta út en það verði ekki háð mati skattyfirvalda í flestum tilvikum hvernig reglurnar eiga að líta út. Ég tel með öðrum orðum að ef meirihlutavilji er fyrir því í þinginu að ljúka þessu máli, ef meirihlutavilji er fyrir því í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að ljúka málinu er lágmarkskrafa til þeirrar ágætu nefndar sú að hún búi málið þannig úr garði fyrir okkur í þinginu að það sé framkvæmanlegt svo að við séum ekki að opna eitthvert pandórubox vandamála, málaferla og deilumála. Það er lágmark að gera þá kröfu og tel ég eðlilegt, þó að ég eigi ekki sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að beina því til nefndarmanna þar að þeir taki þessa þætti að minnsta kosti til skoðunar eigi málið að halda áfram hér í þinginu, að gera lágmarkslagfæringar á þessu, fara í gegnum það, að það verði sæmilega skýrt fyrir skattyfirvöld og fyrir skattaðilana að framkvæma þetta.

Nú veit ég að það er ekki sérstakt áhugamál þeirra sem eru í meiri hluta í þinginu þessa dagana að hlusta á sérfræðinga eða hagsmunaaðila en ég bendi þó á að hógvær og lítillát en málefnaleg umsögn Félags löggiltra endurskoðenda ætti að vera mönnum einhver leiðbeining í því sambandi. Ég tel raunar að leggja ætti töluverða vinnu í það ef menn ætla sér að fara með málið í gegn að búa það þannig úr garði að það verði ekki uppspretta eilífra ágreiningsmála.

Hæstv. forseti. Nú líður að því að tími minn í þessari ræðu renni á enda. Það var eitt atriði, hæstv. forseti, sem ég vildi nefna vegna þess að mér finnst því ekki hafa verið gerð nægilega góð skil í umræðunni. Það varðar þá fullyrðingu sem hér er ítrekað höfð uppi úr ræðustól þingsins að þetta sé alveg sambærilegt við það þegar erlendir sendimenn njóta skattfrelsis, þetta sé bara alveg sambærilegt við það, þetta sé í anda Vínarsamningsins sem við staðfestum árið 1971, ef ég man rétt, að við höfum í ótal tilvikum sett reglur sem heimili svona skattundanþágur sem þarna er um að ræða. Ég reyndi að vekja máls á þessu í andsvörum við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar áðan um það að ég teldi að með þeirri víðu verktakaskilgreiningu sem er að finna í frumvarpinu væri gengið mun lengra en í Vínarsamningnum og þeim lögum sem leiða af honum. Ég velti þessu máli enn fyrir mér og tel að þegar hv. efnahags- og viðskiptanefnd tekur frumvarpið aftur til meðferðar milli umræðna hljóti nefndin að fara yfir það hvort raunverulega er um að ræða sambærilegar heimildir og tengjast Vínarsamningnum. Er þetta það sama, er þetta raunverulega það sama? Fullyrt er við okkur að þetta sé það sama, eða það gerir hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, en ég leyfi mér að efast um að svo sé.

Ég held að hér sé verið að ganga lengra. Verið er að ganga lengra en Vínarsamningurinn kveður á um, sérstaklega vegna þess að í þeim samningum sem alþjóðasamfélagið hefur gert og varða stöðu sendimanna er jafnan um að ræða menn sem hafa sérstaka tiltekna stöður, ekki þá sem vinna tímabundið að einhverjum verktakaverkefnum. Á þessu er töluverður munur í framkvæmd, bæði fræðilega og praktískt.

Ég tel að við getum ekki lokið umfjöllun um þetta mál nema spurningum af því tagi verði svarað, að það liggi fyrir að búið sé að fara yfir það og bera saman þær reglur sem hér er að finna og hins vegar þær reglur sem gilda um erlenda sendimenn. Ég held að full þörf sé á að gera það til að komast að því hvort þær fullyrðingar sem hafðar hafa verið hér uppi í umræðum eiga við rök að styðjast eða hvort þarna er um að ræða einhvers konar villandi málflutning.

Hæstv. forseti. Að lokum held ég að það sé okkur hollt að hafa í huga það sem Makedóníumenn sögðu forðum daga um sína næstu nágranna. Makedóníumenn sögðu vegna biturrar reynslu: Varist Grikki sem gefa gjafir.