140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í alþjóðasamskiptum ríkja senda menn skilaboð með ýmsum hætti. Menn læra að lesa í skilaboðin, hlutir eru oft kannski ekki sagðir berum orðum en menn senda þó skilaboð fram og til baka. Skilaboðin sem okkur Íslendingum hafa borist frá Evrópusambandinu að undanförnu hafa verið mjög auðskiljanleg. Evrópusambandið hefur efnt til beinna átaka við Íslendinga, annars vegar með því að gerast þátttakandi í málaferlum gegn Íslandi, brotið blað í sögu sinni með því að gerast beinn þátttakandi í málaferlum fyrir EFTA-dómstólnum, og hins vegar með hreint út sagt ótrúlega ósvífinni framgöngu í makríldeilunni.

Því leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmanni þyki ekki tilefni til að Íslendingar sendi viðeigandi skilaboð á móti og hvort það séu viðeigandi skilaboð að á sama tíma og Evrópusambandið kemur fram gagnvart Íslandi með þessum hætti séum við að samþykkja að taka við sérstökum greiðslum frá Evrópusambandinu til að laga íslenskt samfélag, kerfi og vinnubrögð að því sem Evrópusambandið ætlast til eða því fyrirkomulagi sem það telur að eigi að ríkja á Íslandi. Eru það ekki dálítið óheppileg skilaboð við þessar aðstæður, þegar við ættum einmitt þvert á móti að láta Evrópusambandið finna að við séum ákaflega ósátt við framgöngu sambandsins gagnvart Íslandi undanfarin missiri?