140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, sem hv. þm. Jón Bjarnason þekkir auðvitað miklu betur en ég, þá nefndi ég í ræðu minni að mér fyndist óskiljanlegt hvernig þingmenn og ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, margir hverjir, geta verið á fullu í aðlögunarviðræðum og aðlögunarferli og mælt fyrir því að sótt verði um styrki til að undirbúa okkur undir aðild á sama tíma og þeir segja: Nei, nei, stefna okkar flokks er alveg klár og skýr, við ætlum ekki að verða aðilar. Þeir vilja taka við peningum sem beinlínis eru til þess ætlaðir að undirbúa aðild, það stendur í þeim samningum sem liggja til grundvallar að það sé tilgangurinn með þeim, á sama tíma og þeir segja hnarreistir: Nei, nei, okkar stefna er og hefur alltaf verið á móti aðild, við ætlum að greiða atkvæði gegn aðild, en við tökum samt við peningunum.

Ég átta mig ekki á því hvernig þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem eru í þessari stöðu ætla að koma til kjósenda sinna og útskýra gjörðir sínar í þessum efnum. Ég átta mig ekki á því. Það verður auðvitað að vera þeirra vandamál.

Varðandi hina spurninguna sem hv. þm. Jón Bjarnason spyr og snertir skylt mál en þó sjálfstætt, þ.e. hvernig Evrópusambandið hagar áróðursstarfsemi sinni hér á landi, þá er það efni í margar spurningar. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að í alþjóðasamningum sem gilda um sendimenn er gert ráð fyrir því að þeir skipti sér ekki af innanlandsmálum eða pólitískum deilum í löndum þar sem þeir dvelja. Staða sendiherra ESB hlýtur að vera mjög undarleg í ljósi fundahalda sem hann hefur efnt til og eins í þeirri kosningabaráttu sem hann virtist að minnsta kosti reka sums staðar á landinu fyrr í vor (Forseti hringir.) með því að ganga í fyrirtæki eins og frambjóðendur gera að jafnaði fyrir kosningar.