140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál einkennist af tvískinnungi hvernig sem á það er litið, í mörgum skilningi. Það er tvískinnungur í afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli eða afstöðu þess hluta flokksins sem fer með völd, svo ég setji ekki alla undir sama hatt í þeim efnum. Það er líka tvískinnungur í því hvernig þessir samningar eru útfærðir. Hvað það varðar vil ég nota þetta tækifæri til að endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni, að ef menn eru á annað borð glaðir og kátir með það að samþykkja að taka við styrkjum frá Evrópusambandinu til að undirbúa aðild, ef mönnum líður vel með það, tel ég að þeir verði þá alla vega að ganga þannig frá því að það sé ekki háð endalausum túlkunum (Forseti hringir.) og úrskurðum skattyfirvalda sem geta tekið mánuði og missiri.