140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Í lok ræðu sinnar kom hann aðeins inn á þau atriði sem ég fór yfir í ræðu minni varðandi diplómatísk réttindi þeirra sem koma hingað til lands til þess að vinna fyrir ESB við að innleiða þessa styrki. Það stendur á bls. 4 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Persónulegir munir og búslóð nánustu fjölskyldu einstaklinga búsettra erlendis sem ráðnir eru á grundvelli ESB-samninga skulu við innflutning undanþegin tollum, aðflutningsgjöldum, sköttum og öðrum gjöldum, enda sé varan flutt aftur út þegar samningssambandinu lýkur eða hún eyðilögð.“

Svo kemur aðeins neðar:

„Í því felst þó ekki að þeir skuli njóta diplómatískra réttinda.“

Hvernig er hægt að rökstyðja það — nú veit ég að þingmaðurinn samdi ekki þetta frumvarp — að það vinnusamband sem lagt er til í þessu frumvarpi byggist á Vínarsamningnum varðandi þessar undanþágur og að þeir starfsmenn sem eru verktakar skuli heyra undir Vínarsamninginn? Eins og við vitum gengur Vínarsamningurinn fyrst og fremst út á þá sem starfa hér í erlendum sendiráðum og eru á engan hátt verktakar. Hvernig er hægt að rökstyðja hvernig þetta er í frumvarpinu? Þingmaðurinn hvatti til þess að það yrði skoðað milli umræðna á nefndasviði hvort hægt væri að lögjafna eða heimfæra þetta yfir á þá diplómatísku vernd sem felst í Vínarsamningnum.

Svo vil ég líka benda á þann tvískinnung í þessu frumvarpi að vísað er til þeirra réttinda sem í Vínarsamningnum felast en dregið úr þeim í næstu setningu og sagt að þeir njóti samt ekki (Forseti hringir.) þeirra réttinda sem sendimenn hafa.