140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í texta með frumvarpinu að með því erum við að breyta lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr þessum sjóði og að um aðstoð við umsóknarríki er að ræða.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmið aðstoðarinnar er að auðvelda ríkjunum að uppfylla skilyrði aðildar með uppbyggingu stofnana …“

Samt sem áður reyna enn þá margir hv. þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna, að halda því fram að við séum í aðildarviðræðum en ekki aðlögunarferli. Sú röksemdarfærsla gengur ekki lengur, það þarf ekki að rífast og pexa um það enn þann dag í dag hvort þetta sé aðildarumsókn eða aðlögunarferli. Það liggur alveg klárt fyrir.

Þá vil ég líka rifja upp hvernig þetta mál bar að inn í þingið á sínum tíma þegar var sótt um aðild að Evrópusambandinu. Annar stjórnarflokkanna hafði barist gegn aðild og ítrekað haldið því fram í kosningabaráttu sinni að hún væri ekki á dagskrá. Síðan er hún bara komin á dagskrá. Seinna kom í ljós, og það hafa hv. þingmenn Vinstri grænna upplýst, að um þetta var samið á bak við tjöldin við Samfylkinguna áður en stjórnin var mynduð. Það hefur komið fram að það gerðist í raun fyrir kosningarnar. Ég held reyndar að ekki hafi allir hv. þingmenn Vinstri grænna vitað af því en sumir vissu af því og forustumennirnir. Við sjáum þannig hvernig haldið var á málinu í upphafi og við þurfum ekki að fara yfir það hvernig það var þegar sótt var um aðildina. Því var lýst vel af hv. þm. Birgi Ármannssyni þegar hann sagði í atkvæðaskýringu að heyra mætti svipuhöggin og ískrið í hlekkjunum (Gripið fram í.) eða hringlið í hlekkjunum. Þannig var það. Það var útskýrt í atkvæðaskýringum margra og sérstaklega eins hæstv. ráðherra. Það vakti auðvitað mikla undrun hvernig að þessu var staðið.

Þetta ferli hefur náttúrlega frá upphafi verið algerlega mislukkað, sem betur fer, en það er sérstakt að einstakir hv. þingmenn Vinstri grænna skuli enn þá halda því fram að hér sé um að ræða aðildarumsókn en ekki aðlögunarferli þó að hið síðarnefnda hafi komið skýrt fram í skjölum og textum.

Það er líka ágætt að rifja upp að forsvarsmenn Vinstri grænna sögðu í umræðunum að við ætluðum að byrja á því að taka stærstu ágreiningsmálin, opna þau og þetta tæki ekki langan tíma. Ef þetta strandaði væri bara fljótlegt að fara heim aftur og ekki þyrfti að eyða miklum tíma, miklum peningum eða mikilli orku í þetta ferli. Síðan kemur allt annað á daginn. Þetta er auðvitað að hitta fyrir þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem hafa gengið á bak orða sinna í þessu máli.

Ég vil aðeins staldra við og rifja upp það sem kom fram við fjárlagagerðina fyrir árið 2011. Í hv. fjárlaganefnd var reynt að fá upplýsingar um það hvort einhverjir IPA-styrkir væru inni í fjárlögunum, þá hve miklir og í hvað væri verið að nota þá peninga í viðkomandi ráðuneytum. Svörin frá ráðuneytunum voru öll í þá veru að það væri í raun enginn kostnaður sem fylgdi umsókninni að Evrópusambandinu. Það tæki því nánast ekki að tala um það. Einstaka starfsmenn ráðuneytanna væru að sinna einhverjum verkefnum en það mundi ekki kosta neitt. Þannig voru svörin gegnumsneitt þegar verið var að reyna að ná þeim fram og þau eru meira að segja til skrifleg.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti á áðan, að þegar menn skoða svokallaða landsáætlun um IPA-styrkina og fjáraukalögin fyrir árið 2011 er greinilega einhver skekkja þar á milli miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og munar hundruðum milljóna. Það er umhugsunarefni. Þess vegna tel ég mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari sérstaklega yfir það og einnig hvernig meðferð þeirra styrkja sem búið er að greiða út í dag hefur verið háttað. Nú erum við að samþykkja frumvarp sem gefur þessar ívilnanir gagnvart sköttum og gjöldum vegna styrkjanna og þá er mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði hvernig þeir styrkir sem nú þegar hafa verið greiddir út hafa verið meðhöndlaðir með tilliti til skatta.

Ástæðan fyrir því að mælt er fyrir þessu frumvarpi er sú að gefa á undanþágu gagnvart skattgreiðslum. Skilyrði Evrópusambandsins eru þau að þegar það veitir styrki til aðstoðar ríki sem er í umsóknarferli til að ganga í Evrópusambandið fari þeir peningar að fullu í verkefnið en ekki verði tekið af þeim í skatta og tolla. Það er hugsunin hjá Evrópusambandinu og þess vegna er þetta mál lagt fram.

Það er í raun kapítuli út af fyrir sig að fara yfir greinar frumvarpsins. Það sem vekur mestu athygli mína er skilgreiningin á svokölluðum ESB-verktökum, með tilliti til þeirra fjármuna sem veita á til þessara verkefna í ríkjum sem eru í umsóknarferli eða aðlögunarferli. Í 2. gr. frumvarpsins er skilgreint hvað er ESB-verktaki, það er einstaklingur eða lögaðili sem veitir þjónustu og/eða afhendir vörur og/eða vinnur verk með fjárstyrk samkvæmt ESB-samningi. Það kemur síðan fram í 5. gr. hvað þetta þýðir í raun og veru, en þar segir að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, eru ESB-verktakar og selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skulu undanþegnir virðisaukaskatti. Þeir sem uppfylla þau skilyrði að vera ESB-verktakar losna við að borga skatta, tolla, virðisaukaskatt o.s.frv. og meira að segja útsvar.

Þá veltir maður fyrir sér hvernig þetta snýr að innlendum samkeppnisaðilum, hvort þetta geti ekki valdið samkeppnislegri mismunun. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég verð dálítið hugsi þegar ég fer yfir rökstuðning meiri hlutans sem kemur fram í nefndarálitinu og þann rökstuðning sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu. Að mínu mati er aðeins gerð smávægileg tilraun af hálfu meiri hlutans til að rökstyðja að ekki sé á ferðinni mismunun. Þar segir að við umræður í nefndinni hafi komið fram áhyggjur af samkeppnisstöðu innlendra aðila og síðan er vitnað til þess að þetta hafi verið skoðað við samningu frumvarpsins í fjármálaráðuneytinu. Textinn um mat fjármálaráðuneytisins finnst mér mjög innihaldsrýr, svo ég noti það orð, og mér finnst ekki vera gerð nægileg tilraun til að útskýra þetta.

Eins og komið hefur fram í umræðunni sendi Félag löggiltra endurskoðenda umsögn um frumvarpið og hún vakti athygli mína þegar ég las hana. Í henni kemur mjög skýrt fram að frumvarpið veki margar spurningar og ákvæði séu ekki nógu skýr og er þar bent á 3. gr., 4. gr. og einnig 5. gr. Ég vil fá að vitna í niðurlag umsagnar Félags löggiltra endurskoðenda, með leyfi forseta, en þar segir:

„Ekki verður séð af þessu frumvarpi að fylgt sé þeirri kröfu að IPA-styrkir skuli renna óskiptir til verkefnisins, þ.e. undanþegnir öllum sköttum, þar sem innlendum aðilum er sinna verkefnum af þessum toga er gert að greiða tolla og vörugjöld (af vörum sem þeir flytja ekki sjálfir inn) og tekjuskatt. Slíkt veikir samkeppnisstöðu innlendra aðila.“

Þetta hlýtur auðvitað að vekja upp spurningar sem þarf að svara ítarlegar í meðförum nefndarinnar og ég vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki málið inn milli 2. og 3. umr. og fari betur ofan í þetta. Ég tel fulla ástæðu til þess því að sá rökstuðningur sem kemur fram í álitinu finnst mér ekki nægilega sterkur. Síðan setur maður reyndar spurningarmerki við eitt sem ég staldra orðið æ oftar við, og er ugglaust lenska í þessu. Þegar búið er að telja upp allar greinar frumvarpsins sem eru sjö, kemur 8. gr. og hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd laga þessara.“

(Gripið fram í: Einmitt.) Það er í raun og veru sagt í restina: Samþykkið lögin og síðan má ráðherrann gera nákvæmlega það sem honum dettur í hug í reglugerð. Ég hélt, virðulegi forseti, að umræðan í þinginu hefði verið á þann veg á undanförnum árum, a.m.k. missirum, að nú væri kannski kominn tími til að snúa af þessari braut og gera lögin miklu markvissari og það sé skýrt hvað í þeim felist, í stað þess að setja svona opið heimildarákvæði sem við sjáum allt of mikið af. Það er í raun í höndum ráðherrans hvernig hann túlkar lögin. Þetta finnst mér vont við þetta frumvarp og sérstaklega í ljósi þess sem snýr að hugsanlegri samkeppnislegri mismunun á milli svokallaðra ESB-verktaka og innlendra aðila sem vilja taka að sér ákveðin verkefni. Það er auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Eftir að hafa lesið þetta ítarlega og fína álit frá Félagi löggiltra endurskoðenda þar sem einmitt er bent á þá annmarka að þetta gæti verið snúið af því að lögin séu ekki nægilega skýr, og þar sem fyrir liggur umsögn áður en frumvarpið er samþykkt, tel ég mjög mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir þetta á milli 2. og 3. umr. til að skýra betur markmið laganna.

Þetta atriði vekur líka kannski upp spurningar sem stundum hafa verið bornar upp varðandi reglugerðarheimildir, þó að það eigi kannski ekki við í þessu máli, ég er ekki að segja þetta þess vegna. Það hafa ítrekað komið ábendingar frá lögmönnum sem segja að með lagasetningu á Alþingi þar sem nánast alltaf er þessi opna reglugerðarheimild í lokin, eftir að búið er að telja upp allar greinar frumvarpsins, sé í raun og veru verið að færa löggjafarvaldið frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Löggjafinn sé að gefa framkvæmdarvaldinu allt of mikið vald með slíkri lagasetningu.

Oft er maður mjög hugsi yfir því, í þessari umræðu, að menn skuli enn halda því fram að við séum í umsóknarferli en ekki aðlögunarferli. Ég tek undir það sem hefur komið fram og þarf svo sem ekki að eyða mörgum orðum á, að það er hreint með ólíkindum að á meðan við stöndum í þessum miklu átökum við þetta ríkjabandalag, Evrópusambandið, sem hótar okkur nánast vikulega vil ég leyfa mér að segja, skuli menn á sama tíma ræða það að þiggja einhverjar dúsur frá þeim sömu aðilum. Það er meira að segja svo komið að farið er að ganga fram af hæstv. utanríkisráðherra, sem er auðvitað guðfaðir þessarar umsóknar. Hann sér ekki lengur eitthvert grín og djók í því sem er að gerast, og ég sá haft eftir hæstv. ráðherra í fjölmiðlum í dag að hann er farinn að taka óstinnt upp hótanir Evrópuþingsins og Evrópusambandsins, sem eiga auðvitað engan rétt á sér. Sú spurning hlýtur að koma upp hvort menn eigi ekki að staldra við og skoða hvort þeir ætli virkilega að gera þetta svona, að á sama tíma og við stöndum í harðvítugu stríði séum við að samþykkja að þiggja einhverjar dúsur í aðlögunarferlinu.

Það gefur augaleið að þeir sem sækja um aðild að Evrópusambandinu ætla að fara þar inn, annars væru þeir ekki að sækja um. Það er ekki þannig að menn séu að aðlaga regluverk Evrópusambandsins að íslenska regluverkinu, heldur auðvitað öfugt. Það vita allir og eru fyrir löngu búnir að sjá það. Auðvitað er gengið í berhögg við vilja meiri hluta þjóðarinnar með því að eyða öllum þessum tíma, peningum og orku í þetta verkefni.

Ég verð, virðulegi forseti, að nota síðustu mínútuna mína til að ítreka það að auðvitað verður að breyta vinnubrögðunum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Menn verða að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki eins og þeir halda að einhverjir vilji heyra, til að réttlæta það sem menn hafa áður sagt í kosningabaráttunni og annars staðar. Þetta á sérstaklega við um hv. þingmenn Vinstri grænna, nánast flesta, ekki alla. Þegar við vorum að reyna að fá upplýsingar um IPA-styrkina og hvort verið væri að setja þá inn í fjárlögin með óbeinum og beinum hætti fengum við fá svör en nú kemur fram þessi munur, það virðist muna nokkur hundruð milljónum. Það þarf auðvitað að fara yfir það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hvort þessi munur sé raunverulegur eða hvort þetta byggist á einhverjum misskilningi. Það þarf líka að skoða hvernig farið hefur verið með þá fjármuni sem þegar hafa verið veittir í þessi verkefni með tilliti til skattgreiðslna. Lögin sem heimila undanþáguna hafa ekki verið samþykkt, en til að geta tekið við IPA-styrkjunum verður að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins um að ekki megi greiða af þeim tolla, skatta eða útsvar. Þá vaknar spurningin: Hvernig hafa þeir styrkir sem þegar hafa verið greiddir verið meðhöndlaðir?

Það þarf líka að stemma af þá fjármuni sem koma fram í landsáætluninni, sem ég er nú að sjá í fyrsta sinn, miðað við það sem kemur fram í þeim upplýsingum sem við kölluðum eftir í hv. fjárlaganefnd. Svörin voru alltaf þessi: Ja, þetta er eiginlega ekki neitt, þetta kostar ekki neitt. Auðvitað þarf að stemma mismuninn af, ef hann er til staðar. Fljótt á litið virðist manni vera um mjög stórar upphæðir að ræða. Við þurfum að fullvissa okkur um hvað þarna er á ferðinni, sérstaklega ef við höfum verið að þiggja IPA-styrki frá Evrópusambandinu — nú veit ég það ekki og óska þess vegna eftir því að nefndin skoði það sérstaklega — og þeir hafa verið meðhöndlaðir með eins og lög kveða á um í dag, því það er ekki búið að samþykkja þetta frumvarp til laga til uppfylla skilyrði Evrópusambandsins um IPA-styrkina. Það er skilyrt af hálfu Evrópusambandsins að styrkirnir eiga að renna allir í þau verkefni sem þeim er ætlað, hluti af þeim á ekki að fara í skattgreiðslur, útsvarsgreiðslur eða til að greiða tolla og aðflutningsgjöld til viðkomandi ríkis. Styrkirnir eiga að fara í uppbyggingu á stofnunum til að aðlaga þær að Evrópusambandinu, gera okkur tilbúin þannig að verði umsóknin og aðild samþykkt sé búið að aðlaga stjórnsýsluna að regluverki Evrópusambandsins. Það er hugsjónin á bak við þetta. Við verðum að vera meðvituð um þessa spurningu: Höfum við verið að taka við styrkjum með þessum skilyrðum frá Evrópusambandinu en ekki meðhöndlað þá þannig? Það er eitt af þeim atriðum sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd verður að skoða sérstaklega milli 2. og 3. umr. Jafnframt verður að kveða skýrar á um samkeppnisstöðu aðila í frumvarpinu og lögskýringum og bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram frá til dæmis Félagi löggiltra endurskoðenda. Það er mjög lítil tilraun gerð til þess í meirihlutaálitinu að útskýra þetta, aðeins vísað í þá skoðun sem gerð var í fjármálaráðuneyti við samningu frumvarpsins. Þetta eru auðvitað mikilvægar spurningar sem verður að svara hér því ekki hafa stjórnarliðar komið upplýsingum um þetta á framfæri í umræðunni.