140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Aðeins fyrst út af því sem hv. þingmaður kom inn á og hefur oft talað um í mörgum öðrum málum og ég tók fyrir í ræðu minni, þ.e. þessar reglugerðarheimildir ráðherra. Það er náttúrlega algjörlega óþolandi að það skuli alltaf koma í lok frumvarpsins og síðan ekkert um það í lögskýringargagninu, í nefndarálitinu, hvað í raun og veru felst í þessu framsali frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Hver er hugsunin á bak við það? Um hvað á að setja reglugerð? Það er í raun bara reglugerð um allt sem kveðið er á um í lögum þessum. Við gætum alveg eins breytt þessu og haft frumvarpið þess vegna bara þrjár, fjórar línur og svo kæmi á eftir: Ráðherra setur síðan reglugerð um framkvæmd laganna eins og honum dettur í hug. Þetta er náttúrlega algjörlega óþolandi.

Við þurfum ekki annað en rifja upp það sem var í umræðu hér fyrir nokkrum vikum eða dögum um frumvarp sem var samþykkt í sambandi við skeldýrarækt. Þá var það þannig að menn höfðu allt annan skilning á því en fram kom í lögunum. Það verður því að vera mjög skýrt hvernig þetta er gert.

Hv. þingmaður spyr um 596 milljónir á fjárlögum 2012. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að þetta var gert í rangri röð. Auðvitað er eðlilegra að samþykkja það fyrst hvort taka eigi við þeim. En það er sláandi, og ég kom töluvert inn á það í ræðu minni, að í áætluninni er gert ráð fyrir 5 milljörðum á árunum 2011–2013 eftir því sem ég get lesið út úr þessari landshlutaáætlun. Þess vegna tók ég það fyrir í ræðu minni að mikilvægt væri að við fengjum alveg konkret upplýsingar um hvað tekið var við miklu á árinu 2011. Menn hafa sagt að þetta séu sirka 1,5 milljarðar. Við verðum að átta okkur á því hvernig farið er með það, hvort farið hafi verið öðruvísi með það en gert er ráð fyrir. Þess vegna er svo mikilvægt að við förum yfir þessa hluti eins og hv. þingmaður tók (Forseti hringir.) undir með mér í andsvari sínu.