140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Veruleikinn kristallast ef til vill í andsvari hv. þingmanns. Hann er þannig að í lögum Evrópusambandsins getur aðildarríki eða ríki sem sækir um aðild að sambandinu fengið svokallaða aðlögunarstyrki. Það vissu íslensk stjórnvöld þegar þau sóttu um aðild að Evrópusambandinu, þá ætluðu þau að aðlaga sig reglum Evrópusambandsins og höfðu það markmið að ganga í Evrópusambandið, það gefur augaleið, og þetta eru skilyrðin.

Hv. þingmaður spyr réttilega: Er eðlilegt að íslensk stjórnvöld veiti einhvern afslátt af þessu eða bollaleggi um einhverja aðra aðila? Það er nefnilega kjarni málsins að þegar maður sækir um aðild veit maður hvað fylgir því og maður hefur í raun og veru ekkert um það að segja vegna þess að það er alveg skýrt í löggjöfinni hvernig það er og skilyrði Evrópusambandsins eru alveg skýr, styrkirnir eru ætlaðir til aðlögunar og til þess að byggja upp stjórnsýsluna og -kerfið og stofnanir, það fylgir þessum styrkjum.

Við erum alltaf í þeirri umræðu að við munum hugsanlega ekki gera þetta eða hitt. Valið stendur bara ekki um það. Valið er bara það að þegar maður sækir um þessa IPA-styrki þarf maður að uppfylla þessi skilyrði og það á ekki að koma neinum í opna skjöldu. Það liggur alveg klárt fyrir af því að við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu en Evrópusambandið er ekki að sækja um aðild að Íslandi. Það sækir enginn um eða greiðir atkvæði með því að sækja um aðild, eins og sumir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna gerðu, nema vilja fara inn. Þetta er ekki eins og að gera dyraat og banka á hurðina og hlaupa í burtu, það er bara ekki þannig. Maður gengur að því vísu þegar maður sækir um aðild (Forseti hringir.) og sækir um IPA styrkina, þá þarf maður að breyta íslenskum lögum til þess að uppfylla skilyrðin þannig að það liggi skýrt fyrir.