140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um bjölluat velti ég nú fyrir mér hvort einhverjum mundi detta í hug að fara og gera bjölluat í brennandi húsi, hvort viðkomandi mundi nú ekki reyna að bjarga íbúunum frekar. Það ætti vitanlega að vera hlutverk Íslendinga að sýna Evrópusambandinu fram á að það er hægt að bjarga sér út úr þrengingum án þess að fara á hnén eða beita önnur ríki einhvers konar efnahagslegu ofbeldi, sem ég held að Evrópusambandið geri við mörg ríki innan þess, allt í þágu þess að bjarga stóru fjármálastofnununum sérstaklega í Þýskalandi og Frakklandi. Það verður að segjast alveg eins og er að það virðist eiga að fórna þarna ákveðnum hlutum til þess að það gangi.

Ég man ekki til þess, frú forseti, en kannski getur hv. þingmaður hjálpað mér að rifja það upp, að þegar þingsályktunartillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var til umræðu hér (Forseti hringir.) hafi legið fyrir hvers konar skilyrði þyrftu að fylgja þessum IPA-styrkjum, að við þyrftum að mismuna útlendingum og Íslendingum á kostnað Íslendinga.