140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór nú sérstaklega yfir það í ræðu minni sem hv. þingmaður benti á, að það er alltaf verið að tala um hlutina öðruvísi en þeir eru. Sumir hv. þingmenn, að sjálfsögðu ekki allir, segja það sem þeir telja að aðrir vilji heyra. En auðvitað platar maður ekki kjósendur, fólkið í landinu, nema í ákveðinn tíma eða þar til það uppgötvar hvernig í pottinn er búið. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, auðvitað bankar maður ekki á brennandi hús og vill fara þar inn ekki nema þá til þess að bjarga einhverjum, sem er auðvitað rétt að gera.

Auðvitað sjáum við að það eru ofboðslegar væringar innan Evrópusambandsins. Það mun væntanlega þróast meira í þá átt að framsalið frá þjóðþingunum mun færast meira til Evrópuþingsins í ríki frekar en ríkjabandalag. Auðvitað er þetta hlutur sem við verðum að fara mjög taktískt yfir. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja umsóknina til hliðar bara sem fyrst, helst á morgun eða í kvöld, og hætta í þessu aðildarferli (Forseti hringir.) því að það er ekkert vit í áframhaldandi ferli og umsókninni eins og það liggur fyrir.