140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ágæta ræðu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hv. þm. Jón Bjarnason stóð lengi í stríði innan ríkisstjórnarinnar vegna þessa máls og aðildarumsóknarinnar almennt og segja má að hann hafi goldið fyrir það með ráðherradæmi sínu að hafa staðið í lappirnar í þessum málum.

Ég vildi aðeins, bara af því að við erum að tala hér um IPA-styrkina sérstaklega, biðja hv. þingmann að rifja það upp með mér hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti sæktu um styrki fyrir hönd sinna málaflokka eða sinna stofnana, en tekinn hafi verið einhver snúningur á því einhvers staðar á leiðinni, sennilega í kringum jólin 2010/2011, vegna þess að ráðherrum Vinstri grænna, að minnsta kosti sumum hverjum, leið ekki vel með að (Forseti hringir.) fara bónarveginn til Brussel í þessum efnum.