140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að velta fyrir mér, nú voru greinilega skiptar skoðanir um þetta í ríkisstjórninni á þeim tíma sem hv. þm. Jón Bjarnason átti þar sæti. Það bárust fregnir af því, bæði hér í þinginu og í fjölmiðlum, að þar væru skoðanir skiptar. Ef ég man rétt var forminu einhvern veginn breytt á þessum tíma, fyrir um það bil einu og hálfu ári. Í staðinn fyrir að umsjón með styrkjaumsóknunum væri hjá ráðuneytunum væri þetta fært frá þeim til, ef ég man rétt, samninganefndarinnar og eftir atvikum ráðherranefndar um Evrópumál. Það er að minnsta kosti klætt í þann búning að einstakir ráðherrar, segjum bara til dæmis hæstv. umhverfisráðherra eða hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða einhver þeirra, eru ekki umsækjendurnir heldur er einhvern veginn farið fram hjá þeim, að minnst kosti að nafninu til.