140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur sannarlega staðið vörð um andstöðu sína við þessa IPA-styrki og eins og fram hefur komið var honum ýtt úr ríkisstjórn fyrir vikið. Hann sagði hér ágæta setningu í ræðu sinni, að svo virtist sem hin íslenska stjórnsýsla væri að ánetjast ESB-fé. Ég get tekið undir það, ég hef heyrt hann segja þetta áður. Þetta er á einhvern hátt á þann veg að þegar hin svokallaða stjórnsýsla finnur lyktina af þessum 5 þús. milljónum er allt sett á fullan skrið og þar með er náttúrlega jafnframt verið að tryggja stuðning við ESB-umsóknina sjálfa, má segja, því að þannig er þetta gert, að fjölga í því liði sem hefur hagsmuni af því að við göngum í ESB.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þess að hann fór yfir það hér í ræðu sinni: Hefur hann ekki áhyggjur af sínum eigin flokki vegna þessa máls? Hann eyddi þónokkrum (Forseti hringir.) tíma ræðu sinnar í að ræða ástandið.