140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:28]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum alveg viðurkenna að bæði stofnanir og einstaklingar sem þyrstir í verkefni eru í fjársvelti — það er alveg skiljanlegt að þar geti verið löngun til að taka á móti slíkum peningum sé það á annað borð lögleitt og innleitt af hálfu Alþingis. Það er því ekki hægt að álasa embættismönnum í þessum efnum en stjórnmálamennirnir bera ábyrgð. Það eru þeir sem bera ábyrgð á því að fjármagn er að koma inn, aðlögunarfé, sumir hafa talað um að engir borgarmúrar séu svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir þá. Þetta veit Evrópusambandið, að sjálfsögðu, enda er það enginn nýgræðingur í því að leiða inn til sín nýja aðila og kann öll brögð þar um, meira að segja nokkur hundruð ára gömul brögð sem notuð voru í Grikklandi á sínum tíma.