140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé sagt hér var ég ekki að álasa embættismönnum fyrir að taka þátt í þessari hringekju. Það er beinlínis gerð krafa á þessar stofnanir af hálfu ESB að taka við þessu fé og eyða því. Við erum að tala um himinháar upphæðir og hægt er að nota fjársveltandi stjórnsýslu til þess að eyða þessum peningum. Það er kannski mjög heppilegt fyrir ESB að þetta bankahrun varð 2008 vegna þess að orðið hefur mikill niðurskurður í hinum opinbera geira og stjórnsýslan að því leyti fjárvana þó að ríkisstjórnin finni sér alltaf smugu til að fjölga opinberum starfsmönnum í kringum sjálfa sig.

Mig langar að spyrja þingmanninn vegna þess að hann svaraði ekki spurningu minni. Hann fór yfir það að það frumvarp sem nú er til umræðu hafi ekki verið á dagskrá þegar við ræddum ESB-umsókn á sínum tíma sumarið 2009: Hvað segja flokksmenn (Forseti hringir.) Vinstri grænna um þá þróun sem á sér stað í þinginu núna?