140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vék í máli sínu að því að málið væri með ýmsum hætti óklárað og er það út af fyrir sig í samræmi við þá afstöðu sem ég kynnti hér fyrr í kvöld, að jafnvel þó að menn ætluðu að klára þetta væri alveg ljóst að málið væri ekki tilbúið, það væri ekki búið að hnýta alls konar lausa enda sem væru í því. Ég sagði fyrr í kvöld, og spyr hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort hann geti ekki verið sammála mér um það, að ef menn ætla sér á annað borð að gera það og ef meiri hluti er í þinginu fyrir þessu máli, sem ég efast reyndar um en það á eftir að reyna á það, er þá ekki nauðsynlegt að gera lagfæringar á frumvarpinu til að eyða óvissu og draga úr hættu á mismunun og öðrum þeim göllum sem bent hefur verið á að eru á málinu, ætli menn sér á annað borð (Forseti hringir.) að láta þetta ná fram að ganga?