140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að vanda þyrfti betur vinnuna og lagasetninguna. Því langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í 8. gr. frumvarpsins, sem er reglugerðarheimild til ráðherra eða eins og segir í greininni að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð til að skilgreina betur lögin og útskýra þau frekar: Eru engar takmarkanir á því? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það þurfi að vera einhverjar takmarkanir á því hvert reglugerðarheimildarákvæðið er hjá hæstv. ráðherra og hann þyrfti jafnvel að sýna á spilin hvernig hann hyggst útfæra það?

Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að lítið tillit væri tekið til þeirra ábendinga sem koma fram í umsögnum um málið almennt. Í umsögn Félags löggiltra endurskoðenda kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð af þessu frumvarpi að fylgt sé þeirri kröfu að IPA styrkir skuli renna óskertir til verkefnisins, þ.e. undanþegnir öllum sköttum, þar sem innlendum aðilum er sinna verkefni af þessum toga er gert að greiða tolla og vörugjöld (af vörum sem þeir flytja ekki sjálfir inn) og tekjuskatt. Slíkt veikir samkeppnisstöðu innlendra aðila.“

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst litlar tilraunir gerðar til þess af meiri hlutanum að taka á einmitt þessu álitaefni, sem er reyndar getið um í áliti meiri hlutans. Getur hv. þingmaður tekið undir það og hver er skoðun hv. þingmanns á því? Væri ekki æskilegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði það milli 2. og 3. umr. hvort tekið sé nægilega á þeim ábendingum sem koma þarna klárlega fram í umsögn um málið? Er þetta ekki í raun og veru vanreifað eins og það er í áliti meiri hlutans og þarf ekki skýrleiki laganna að vera meiri við samþykkt þeirra ef þau verða samþykkt?