140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom nú dálítið inn á þetta í ræðu minni, þessar þversagnir í því hvernig Evrópusambandið er skilgreint, og er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er orðin full ástæða til að þingið og meðal annars utanríkismálanefnd taki þetta fyrir og reyni að skilgreina hvers konar fyrirbæri Evrópusambandið er. Það virðist vera mjög á reiki og raunar svo mjög að sumir hv. þingmenn hér halda enn þá að við séum að sækja þarna um til að sjá hvað komi út úr einhverjum samningum, einhverjum tvíhliða samningum sem sé algjörlega óljóst hvert leiði.

Það er löngu orðið tímabært að skilgreina Evrópusambandið og það hefði auðvitað, eins og ég fjallaði um líka, verið æskilegt að fara betur yfir þetta mál í utanríkismálanefnd. Þetta mál var ekki tilbúið til afgreiðslu þar, ekki frekar en í efnahags- og skattanefnd. Þetta mál er komið allt of langt í ferlinu hér í þinginu miðað við hversu stórir ágallar eru á því enn þá og hversu mörg álitaefni eru óútskýrð, m.a. það sem hv. þingmaður bendir á hér að það virðist vera alveg óljóst hvers konar fyrirbæri Evrópusambandið er. Ýmist tala menn um þetta sem ríki sem eigi að lúta sömu lögmálum og ríki eða sem stofnun sem sé undanþegin þeim lögmálum sem ríki þurfa að lúta. Þetta er enn ein áminningin um hversu vanbúið þetta mál er, sem er auðvitað afar óheppilegt í ljósi þess að þetta er liður í því gríðarlega stóra og mikla deilumáli sem umsókn um aðild að Evrópusambandinu er.