140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa o.fl.

604. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa og landbúnaðarsamnings milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa.

Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var 22. júní 2009 í Hamar og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var sama dag.“

Þessi tillaga var áður lögð fram á 139. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er hún nú lögð fram óbreytt ef frá eru taldar smávægilegar breytingar á athugasemdum. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem á ensku heitir Co-Operation Council for the Arab States of the Gulf eða GCC. Þessum samtökum tilheyra Sameinuðu arabísku furstadæmin, Konungsríkið Barein, Konungsríkið Sádi-Arabía, Soldánsveldið Óman, Katar og Kúveit.

Eins og ég gat um áðan var þessi samningur undirritaður var í Hamar í Noregi 22. júní árið 2009 og er því ekki seinna vænna að ljúka við fullgildingu hans. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var sama dag.

Þetta er liður í þeirri miklu vinnu sem fram hefur farið innan EFTA mörg undanfarin ár við það að koma á fríverslunarsamningum við ríki víða um heim og hefur leitt til þess fyrir okkur Íslendinga að við getum nú átt í frjálsum viðskiptum við lönd vítt og breitt um heiminn, ríki og ríkjabandalög eða tollabandalög. Mun það reynast enn mikilvægara í framtíðinni þegar gera má ráð fyrir því að viðskipti milli landa í ólíkum heimshlutum aukist, ég tala nú ekki um þegar siglingarleiðir yfir norðurskautið opnast og Ísland verður hugsanlega í miðpunkti mestu flutningaleiða heims, sem er kannski ekki í svo fjarlægri framtíð. Þá er mikilvægt að við séum í stakk búin til að eiga frjáls viðskipti við lönd mjög víða. Það varðar ekki aðeins beina hagsmuni vegna framleiðslu vara okkar Íslendinga, þess varnings sem við framleiðum nú þegar, heldur skapar það möguleika á því að erlend fyrirtæki sjái sér hag í því að fullvinna hér vörur, ýmist með því að flytja inn íhluti og setja vörur saman hér eða þá að framleiða þær frá grunni og nýta svo þessa fríverslunarsamninga þegar vörurnar eru fluttar héðan. Þessir samningar munu reyndar meira og minna falla úr gildi ef Ísland gengur í Evrópusambandið en við skulum ekki gera ráð fyrir að svo fari. Við höldum því okkar striki við gerð þessara samninga og hefur samstarfið í EFTA reynst okkur mjög vel.

Meginmál þessara samninga er prentað í fylgiskjali, mikilli bók. Þar eru ýmis mjög tæknileg atriði sem ekki gefst tími til að fara yfir í þessari ræðu en ég hvet áhugasama til að kynna sér það á heimasíðu Alþingis, þar liggur samningurinn fyrir í heild sinni, en farið hefur verið yfir þetta allt saman af sérfræðingum EFTA og mun þessi samningur eflaust reynast okkur vel eins og fyrri fríverslunarsamningar.

EFTA-ríkin, þ.e. Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa gert 24 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa og er þá þessi samningur sem hér er lagt til að verði fullgiltur meðtalinn, þ.e. samningurinn við Flóabandalagið.

Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á milli einstakra EFTA-ríkja og hvers ríkis eða ríkjahóps fyrir sig um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Samningaviðræður um fríverslunarsamninginn og landbúnaðarsamninginn tóku tvö ár og þeim lauk í apríl 2008. Það er mikilvægt að hafa það hugfast að svona samningsgerð tekur alltaf töluverðan tíma. Eins og ég nefndi fylgir þessu heil bók, samningurinn sjálfur, og þarf að huga að hverju smáatriði, reyna að sjá fyrir það sem komið getur upp í viðskiptum milli ríkja, sem er auðvitað mjög erfitt oft og tíðum, enda eru milliríkjaviðskipti oft flókin og ýmsar uppákomur sem erfitt getur reynst að sjá fyrir, en menn leitast við að hafa þetta sem skotheldast og gefa sér þá tíma til að ná ásættanlegum samningum, en til viðbótar við þessi tæknilegu atriði blandast oft inn í pólitísk álitamál.

Þegar verið er að gera fríverslunarsamninga koma oft upp pólitískar spurningar, hagsmunir innan ríkjanna, hvaða áhrif samningarnir hafa á stöðu hinna ýmsu hagsmunahópa og í sumum tilvikum gera menn jafnvel athugasemdir við stjórnarfar í þeim löndum sem verið er að semja við og hafa efasemdir um að semja við ríki sem ekki fylgja sömu viðmiðum í stjórnmálum og á Vesturlöndum. Inn í þetta blandast í sumum tilvikum áratugagömul, jafnvel aldagömul álita- eða deiluefni en með samningnum og aukinni fríverslun eru slíkar deilur stundum til lykta leiddar. Það hefur verið sagt að fríverslun milli ríkja sé ein besta leiðin til að framþróun verði sem víðast og þar af leiðandi sé jafnvel æskilegt að taka upp viðskipti við lönd þar sem stjórnarfar er ekki eins og best verður á kosið að okkar mati vegna þess að aukin samskipti við umheiminn og aukin viðskipti séu til þess fallin að ýta undir breytta stjórnarhætti.

Fríverslunarsamningurinn sem hér um ræðir er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur … (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Er nú hv. þm. Árni Páll Árnason mættur í hornsætið sitt og byrjaður að kalla fram í. Ef ég hefði tekið eftir hv. þingmanni hefði ég byrjað fyrr að hlusta eftir hinum skemmtilegu frammíköllum sem berast þarna úr horninu oft og tíðum, en ég var að einbeita mér að því að fara yfir fríverslunarmálin og hyggst halda því áfram.

Sá fríverslunarsamningur sem hér um ræðir er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Hér er sem sagt sérstakt ákvæði til að leiða til lykta álitamál eða ágreiningsmál sem kunna að koma upp vegna samningsins. Þá liggur fyrir hvernig á þeim álitaefnum verði tekið.

Fríverslunarsamningurinn við Flóabandalagið kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur, sem vekur kannski sérstaka athygli, enda eru landbúnaðarvörur sá vöruflokkur sem oft reynist einna erfiðast að semja um, hann er hvað viðkvæmastur í milliríkjasamningum um fríverslun. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili.

Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Flóabandalagsins er viðbótarsamningur og er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Flóabandalagsins. Landbúnaðarsamningurinn myndar hluta fríverslunarsvæðisins ásamt slíkum samningum annars vegar milli Noregs og Flóabandalagsins og hins vegar milli Sviss og Flóabandalagsins, auk fríverslunarsamningsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Flóabandalagið mun meðal annars fella niður tolla á lifandi hross og íslenskt lambakjöt frá gildistöku samningsins.

Þetta er eitthvað sem skipt getur verulegu máli vegna þess að í þessum löndum er mikil hefð fyrir lambakjötsáti og mikil sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað að flytja út lambakjöt á þessar slóðir. Ég minnist þess reyndar að fyrir nokkrum árum hafi komið upp mál varðandi útflutning á lambakjöti til Sádi-Arabíu, minnir mig, þar sem áhugi var á að flytja töluvert mikið magn af íslensku lambakjöti til Sádi-Arabíu en þar greindi menn á um hvaða slátrunaraðferðir bæri að nota. Mér skilst að þau mál hafi verið að mestu til lykta leidd og að menn hafi fundið upp slátrunaraðferðir sem menn geta sætt sig við bæði í arabalöndunum, þar sem menn vilja víða fylgja sérstökum trúarreglum við slátrun dýra, og hér á Íslandi, þar sem við hugum auðvitað að því að vel sé farið með dýrin. Það er sem sé búið að finna upp leið sem er ásættanleg af beggja hálfu sem er mjög æskilegt.

Lifandi hross eru nefnd hérna sérstaklega. Menn þekkja náttúrlega arabíska gæðinga og hversu miklu máli þeir skipta þar í löndum, en það má vel sjá fyrir sér að í arabalöndunum við Persaflóa yrði til áhugi á íslenska hestinum umfram það sem nú er og ef einhver skriður kæmist á það, ef markaðssetning íslenska hestsins tækist jafn vel í arabalöndunum, eins og til að mynda í Austurríki, Þýskalandi og Hollandi, væru þar gríðarlega miklir útflutningshagsmunir fyrir hrossaræktendur og íslenska bændur.

Ísland mun meðal annars fella niður tolla á ýmsar matjurtir, kaffi, kakó og ávaxtasafa. Það er einmitt það sem verslun milli ríkja á að ganga út á. Þarna eru taldar upp vörur sem við framleiðum ekki á Íslandi, alla vega ekki í miklum mæli þó að ég hafi um nokkurt skeið verið þeirrar skoðunar að ástæða sé til að gera tilraunir með kaffirækt í íslenskum gróðurhúsum vegna þess að slíkar tilraunir hafa raunar verið gerðar og skilað töluverðum árangri. Það er með öðrum orðum hægt að fá íslenskt kaffi, kaffi ræktað á Íslandi, en framleiðsla á því er mjög takmörkuð vegna þess hversu skammt á veg sú tilraunastarfsemi er komin. Almennt er verið að framleiða landbúnaðarvörur í þessum löndum sem við framleiðum ekki hér en viljum gjarnan neyta.

Á sama hátt er kannski ekki verið að framleiða jafnmikið af þeim vörum í arabalöndunum sem við framleiðum hér, þar eru aðstæður auðvitað allt aðrar. Hér byggist landbúnaður að miklu leyti á því hversu vel gras sprettur á sumrin en grasspretta í löndum við Persaflóa er mjög takmörkuð allan ársins hring. Þarna er það því hagur beggja aðila að þessi viðskipti verði sem mest og sem ódýrust. Bara til þess að nefna enn frekar hagsmunina sem þessir viðsemjendur okkar hafa af því að flytja inn kjöt frá Íslandi þurfa þeir að vökva alveg linnulaust akra sína til þess að þar vaxi nægt hey til þess að fóðra skepnur þannig að í löndum þar sem vatnsskortur er sífellt að verða meira vandamál er skynsamlegt að semja við ríki sem hefur gnægð vatns og getur fóðrað miklu fleiri skepnur en við gerum nú þegar. Vonandi verða því þessir samningar til þess að viðskipti milli þessara landa verði sem mest og sem hagfelldust fyrir báða aðila.

Landbúnaðarsamningur þessi öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga hlaut prýðisgóðar viðtökur í utanríkismálanefnd. Þetta er auðvitað búið að vera lengi í vinnslu eins og ég nefndi áðan, samningsgerðin hafði staðið í tvö ár þegar henni lauk 2008. Svo var samningurinn undirritaður sumarið 2009 og við erum að fullgilda hann nú þremur árum seinna, svoleiðis að aðdragandinn hefur verið nokkur og hefur gefist tækifæri til að fara vel yfir þetta allt saman innan EFTA. Málið var því vel unnið og má segja fullbúið þegar það kom inn til nefndarinnar þannig að ekki var mikil fyrirstaða í utanríkismálanefnd.

Ég ætla að lesa nefndarálitið, með leyfi forseta. Það er stutt en segir líklega allt sem segja þarf um afstöðu nefndarinnar til þessa máls:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar S. Kristjánsson og Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var í Hamar 22. júní 2009. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var sama dag. Aðilar að Samstarfsráði Arabaríkjanna við Persaflóa eru Sameinuðu arabísku furstadæmin, Konungsríkið Barein, Konungsríkið Sádi-Arabía, Soldánsveldið Óman, Katar og Kúveit.

Tillagan var áður flutt á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.

Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður við gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili.

Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og samstarfsráðsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Samstarfsráðið mun m.a. fella niður tolla á lifandi hross og íslenskt lambakjöt við gildistöku samningsins. Ísland mun m.a. fella niður tolla á ýmsar matjurtir, kaffi, kakó og ávaxtasafa. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.“

Raunar var ég búinn að fara yfir margt af þessu í ræðu minni áðan, en um málið var sem sé mikil samstaða og ekki talin ástæða til í nefndaráliti að bæta miklu við það sem fram kom í þingsályktunartillögunni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson formaður, Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, með fyrirvara, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason og Ragnheiður E. Árnadóttir.