140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á svari mennta-, menningar- og íþróttamálaráðherra við fyrirspurn sem ég flutti í þinginu um aðgang almennings að stórviðburðum í íþróttum í gegnum læstar sjónvarpsútsendingar. Ég vil fagna þessu svari ráðherra og þeirri afstöðu sem þar kemur fram.

Það liggur ljóst fyrir í svarinu að ráðherra er þeirrar skoðunar að viðburðir sem hafa verulega þýðingu og teljast samfélagslega mikilvægir eigi að vera aðgengilegir landsmönnum í opinni dagskrá í sjónvarpinu og á það hvort heldur við um menningarlega viðburði sem íþróttaviðburði.

Ráðherra er einnig sammála því sem ég spyr um að nýta beri þá reglugerðarheimild sem er í 48. gr. núgildandi laga um fjölmiðla, að tryggja þennan opna aðgang að íslenskum stórviðburðum. Það kemur einnig fram í svarinu að vinna er þegar hafin í ráðuneyti menntamála við að setja upp skrá og lista yfir slíka viðburði og leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA um þá viðburði sem yrðu á slíkri skrá.

Það er ljóst að árangur íslenskra afreksmanna í íþróttum hefur verið stórum vaxandi á undanförnum árum, ekki síst í hópíþróttum og landslið okkar hafa náð þeim árangri að vera í úrslitakeppni á öllum stærstu stórmótum heimsins. Á sama tíma hefur verið lokað í meira mæli en nokkru sinni fyrr fyrir aðgengi að þessum viðburðum. Ég tel því mjög mikilvægt að þar sem takast á einkahagsmunir og almannahagsmunir í þessum efnum, fái almannahagsmunirnir að ráða. Ég hvet ráðuneytið til að flýta þeirri vinnu sem er nú í gangi.