140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur nú aftur, að minnsta kosti í orði, fallist á að mikilvægt sé að ráðast í frekari aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili. Lítill hugur virðist fylgja máli og því miður er þróunin áfram í öfuga átt eins og ákvörðun Seðlabankans um stýrivaxtahækkun í morgun ber vott um. Sú ákvörðun er rökstudd með því að hækka þurfi vexti vegna þess að krónan hafi veikst, sem er auðvitað afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, og fjárfesting hafi verið minni en vonast hafði verið til, sem er augljós afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Árni Páll Árnason lýsti því reyndar yfir í morgun að hann vildi fá samráð allra flokka um afnám gjaldeyrishaftanna en það samráð átti greinilega að snúast um eina leið, þ.e. inngöngu í Evrópusambandið. Það er dálítið sérkennileg nálgun akkúrat þessa dagana þegar við horfum upp á til að mynda ástandið í Grikklandi þar sem almenningur hefur tekið á annað hundrað milljarða kr. út af bankareikningum á hverjum degi síðustu daga og orðið óljóst hvort gríska ríkið geti greitt lögreglumönnum, hjúkrunarfræðingum og öðrum laun. Þar eru menn með evruna. Þar er atvinnuleysi hjá ungu fólki yfir 50% og þar hafa skuldir heimilanna hækkað svo mjög að stór hluti heimila ræður ekki við þær.

Hér höfum við hins vegar aðstæður til að bregðast við. Við höfum tækifæri sem hafa ekki verið nýtt í þrjú ár. Nú loksins viðurkennir ríkisstjórnin aftur að bregðast þurfi við og vonandi verða það ekki orðin tóm, vonandi verður ríkisstjórnin tilbúin til að hlusta á tillögur okkar framsóknarmanna, og þær eru margar, um hvað hægt er að gera til að bregðast við skuldavanda heimilanna. (Forseti hringir.) Vonandi förum við að ræða þau mál en ekki málin sem (Forseti hringir.) hv. þingmenn stjórnarliðsins kvarta undan málþófi í.