140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Efnisleg umræða um mál fer fram í þessum ræðustóli. Hér er sá vettvangur sem alþingismenn eiga að nota til að ræða efnislega um mál. Ég vil af því tilefni hvetja þingmenn stjórnarmeirihlutans til að taka meiri þátt í umræðunni og mæta sjónarmiðum okkar sem erum kannski á öndverðum meiði, eins og í sjávarútvegsmálum og í stjórnarskrármálinu sem verður rætt á eftir. Ég hef það á tilfinningunni að stjórnarliðar þori ekki í hina efnislegu umræðu.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom hér enn einu sinni og ræddi um málþóf. Það er til önnur leið en málþóf að stöðva mál. Hún er sú að svæfa mál í nefndum. Ég vil benda á að nú eru 191 mál í nefndum Alþingis, 52 stjórnarfrumvörp skilst mér en kannski voru tvö tekin út í morgun, 58 frumvörp sem eru þingmannamál, 11 þingsályktunartillögur frá stjórninni og 70 þingsályktunartillögur frá þingmönnum og nefndum Alþingis. Ég held að það væri miklu frekar að ríkisstjórnin eða meiri hlutinn mundi líta í eigin barm áður en hann sakar okkur um málþóf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Örstutt um verðbólguna sem hv. þm. Skúli Helgason nefndi. Mér fannst hann gera heldur lítið úr því að við búum við 6,4% verðbólgu en markmið ríkisstjórnarinnar var að ná henni rétt yfir 2% á árinu 2012. Það er gríðarlega alvarlegt vandamál, virðulegi forseti, vegna þess að ekkert annað en ríkissjóður og agi í ríkisfjármálum getur komið í veg fyrir aukna verðbólgu. Þar skortir verulega á eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem er hvorki meira né minna en 2. varaformaður fjárlaganefndar og þiggur laun fyrir sem slíkur, ætti að vita.