140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Þar sem atvinnuveganefnd er að ljúka vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða vildi ég eiga orðastað við formann nefndarinnar út af mikilvægu máli sem ég hef áður vakið athygli á í þinginu og snýr að því að smábátasjómenn á bátum undir 30 tonnum eru samningslausir og hafa verið það í meira en áratug. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur líka vakið athygli á þessu máli.

Ég átti orðastað um þetta við ráðherra velferðar- og vinnumarkaðsmála þar sem ég bar upp ákveðna leið út úr þessu til að tryggja að þessi stétt hefði kjarasamning eins og aðrar og það væri ekki látið líðast að hún væri án kjarasamnings árum saman. Á þessum tíma halda margir smábátasjómenn því fram að gengið hafi verið á rétt þeirra í gegnum skiptingu á verði á aflanum, skiptaprósentunni, og þannig sé hægt að halda launum þeirra niðri sem hafa staðið meira og minna í stað í heilan áratug sem þeir hafa verið samningslausir. Það er óþolandi staða með öllu að stétt manna sé samningslaus árum og jafnvel áratugum saman, en lausnin getur falist í því — að mínu mati og hæstv. velferðarráðherra tók undir það og vil ég spyrja formann atvinnuveganefndar, hv. þm. Kristján Möller, að því sama — að forsenda veiðileyfis og forsenda þess að hægt sé að þinglýsa kvóta á bát og smábát og útgerð almennt sé sú að fyrir liggi samþykktur kjarasamningur, enginn geti gert út án þess að fyrir liggi samþykktur kjarasamningur, það sé forsenda veiðileyfis og forsenda þess að hægt sé að gera út með veiðiheimildum. Þetta er mjög afdráttarlaus og skýr leið sem löggjafinn getur komið með og höggvið þannig á þennan hnút í mikilvægri grundvallarréttindabaráttu þessara þegna íslensks samfélags, sem og margra annarra.

Þess vegna vildi ég beina því til hv. formanns atvinnuveganefndar hvort ekki væri leið að bæta núna við breytingarnar á lögum um stjórn fiskveiða ákvæði um að forsenda veiðileyfis væri sú að fyrir lægi kjarasamningur við sjómenn alla.