140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af þeirri spurningu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, 1. þm. Suðurk., beindi til mín út af kjarasamningum og þeirri endurskoðun sem er í nefnd á fiskveiðistjórnarlögunum vil ég aðeins segja þetta: Nokkuð margir hafa tekið þetta til umfjöllunar af þeim gestum sem hafa komið til nefndarinnar ásamt einstökum nefndarmönnum sem ég horfi nú á, eins og hv. varaformanni nefndarinnar.

Á það getur að líta í umsögnum að eitt af atriðunum sé að gildur kjarasamningur sé í gangi. Þegar ég segi þetta, virðulegi forseti, ræðum við oft í sama mund að verktakar hjá ríkinu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði eins og að vera skuldlausir með skatta, vera með tryggingar í lagi, eigið fé, bankatryggingar fyrir verkum o.s.frv.

Það hefur því komið til tals og verið rætt í nefndinni, virðulegi forseti, að ein af forsendunum til að fá nýtingarleyfi, þegar við förum þá leið eins og verið er að ræða um, verði sú að í gildi séu kjarasamningar.

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála því að það á ekki að vera möguleiki undir neinum kringumstæðum, hvort sem það er í þessari grein eða annarri, að einhver atvinnurekstur brjóti kjarasamninga. Það gengur ekki upp. Aðilar eiga að vera með kjarasamninga í gildi eins og er á flestöllum stöðum.

Svarið við þessu er að það er til skoðunar, eins og fjölmörg atriði í nefndinni hvað varðar endurskoðun á þessum lögum, hvort ekki sé rétt að hafa það eitt af skilyrðum fyrir nýtingarleyfi að í gildi séu kjarasamningar.