140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

svar við fyrirspurn.

[15:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á því að ég sendi inn fyrirspurn þann 13. mars varðandi virðisaukaskattstekjur ríkisins síðastliðin þrjú til fjögur ár. Hv. forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, tjáði mér það um daginn að svarið mundi berast í síðasta lagi 14. maí. Nú er kominn 16. maí.

Málið er ekki flókið vegna þess að þetta eru opinberar tölur sem ættu að liggja fyrir í gagnagrunnum ríkisins. Ég vil beina því til forseta þingsins að gerð verði gangskör að því að svarið berist til þingsins vegna þess að málið varðar afar mikilvægar upplýsingar. Ég beini því til forseta að eitthvað verði gert í þessu máli svo að ráðuneytin geti ekki setið á fyrirspurnum þingmanna og látið eins og þær séu ekki til.