140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðu frá því í lok mars er nú haldið áfram. Svo sem vitað er er það ásetningur stjórnarmeirihlutans að flytja á vetri komanda frumvarp á Alþingi um breytingu á stjórnarskránni.

Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu er um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar að því frumvarpi. Já- eða nei-spurning sem allt fólk skilur. Til viðbótar verði spurt:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Já eða nei.

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Já eða nei.

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? Já eða nei.

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Já eða nei.

Og að lokum:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Já eða nei.

Ekki flókið þykir mér. Engin breyting frá þeirri tillögu sem þá var rædd 29. mars hefur komið fram utan þeirra sem lagðar voru fram hér við umræðuna þá.

Hins vegar er lögð fram hér ný breytingartillaga sem er á þskj. 1248. Hún er einföld og er um það að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en 20. október 2012.

Ég vil greina frá því að Alþingi hefur leitað til hæfustu lögfræðinga til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðsins með tilliti til lagatæknilegra þátta og til að gera drög að greinargerð með frumvarpi sem lagt verður fram.

Því vil ég ítreka að á haustþingi verður lagt fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga í anda þeirrar niðurstöðu sem verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það frumvarp verður rætt hér í þremur umræðum eins og öll önnur frumvörp og gefst þá kostur á að ræða einstakar greinar og gera tillögur að breytingum hugnist þingmönnum það, rétt eins og á við öll lög sem afgreidd eru í þessum sal.