140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði er þetta ekkert flókið í mínum huga. Fyrsta spurningin er um það hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýju frumvarpi. Það er í mínum huga ekkert flókið.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að þær tillögur hafi verið lagðar til hliðar. Hins vegar hafa hæfustu lögfræðingar verið fengnir til að lesa þær yfir með tilliti til þess hvort það standist ekki nákvæma lagalega skoðun allt sem þar er, af því að við hljótum náttúrlega að vilja hafa það svo, þannig vil ég alla vega hafa það frumvarp sem ég hyggst standa að. Í mínum huga er ekkert óskýrt við þetta.

Síðan er spurt nokkurra grundvallarspurninga og þá getur fólk sem vill til dæmis ekki jafnan atkvæðisrétt en vill annað sem er í tillögunum sagt já við stóru spurningunni og nei við því að það vilji jafnan atkvæðisrétt. Þetta er mjög einfalt í mínum huga.