140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst þakka þingmanninum fyrir að segja frá því sem honum þykir sæmilegt eða gott í því sem við erum að gera varðandi þetta mikilsverða mál.

Ég get greint frá því að það umboð sem þetta fólk hefur — og ég vil taka fram að þarna vinnur fólk á einstaklingsbasís, þetta er fólk sem við leitum til sem sérfræðinga og það getur leitað til annarra ef það vill. Þetta er gert í fullu samráði við skrifstofu Alþingis svo að það sé líka tekið fram.

Umboðið er þröngt, að fara yfir textann, hinn lagalega texta, og athuga síðan allsherjarsamhengi frumvarpsins og hvort þar stangist nokkuð á annars horn ef ég má komast þannig að orði.