140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:09]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð langt um liðið frá því við ræddum þetta mál hér síðast fyrir páska. Þá var hugmyndin sú, af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs yrði samhliða forsetakosningum. Nú er sú tillaga uppi að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin eigi síðar en 20. október. Eftir stendur megingagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þetta mál. Hún felst í því að málið sé ekki í þeim búningi að það sé tækt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur verið okkar megingagnrýni allar götur í þessu máli, að fyrst þurfi menn að koma sér saman um það hvernig þeir vilja hafa frumvarp til stjórnarskipunarlaga áður en spurningum er beint til þjóðarinnar. Hér er um það að tefla að í miðju ferlinu á að fara með þetta mál í skoðanakönnun til þjóðarinnar án þess að menn geri sér neina grein fyrir því hvað eigi að gera við þær niðurstöður.

Mér finnst þetta ferli vægast sagt flókið og illskiljanlegt. Þó að ég heyri að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, telji þetta vera afskaplega einfalt mál, þá er það það nú ekki.

Ég gleðst yfir því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi fengið lögfræðinga til að koma að þessu máli. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni höfum kallað eftir því í mjög langan tíma að sérfræðingar verði fengnir til að fara yfir þessar tillögur. Mér finnst það hins vegar galli ef umboð þessara aðila er mjög þröngt. Ég hefði talið nauðsynlegt að við fengjum hreinlega vinnu við það hvernig frumvarp til stjórnarskipunarlaga ætti að líta út, þannig að ég tel að gefa þurfi þessum aðilum verulega mikið svigrúm til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs.

Mér finnst í reynd óskiljanlegt hvernig það á að geta farið saman að fara með tillögurnar eins og þær liggja fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu og að á sama tíma séu lögfræðingar að fara yfir tillögurnar og rýna þær.

Þá spyr maður sig: Hvað er það sem verið er að biðja þjóðina um að taka afstöðu til? Ég hjó eftir því í andsvari hér áðan hjá hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að verið væri að bera hugmyndafræðitillögur stjórnlagaráðs fyrir þjóðina. Þá er spurningin: Í hverju felst sú hugmyndafræði? Það liggur alveg fyrir að eins og tillagan er fram sett er ekki hægt að segja að hrein skil séu í því hvernig tillagan er borin fram.

Í þessari tillögu er að finna yfirlýsingar um tiltekið málefni, margs konar yfirlýsingar í mannréttindakaflanum, og síðan eru líka mjög útfærðar tillögur í þessum hugmyndum stjórnlagaráðs. Tillögurnar eru því mjög mótsagnakenndar og ég skil ekkert í því hvernig á að vera hægt að bera hugmyndafræðitillögur stjórnlagaráðs undir þjóðina.

Hvað vill meiri hluti nefndarinnar fá út úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvað er það? Hvaða veganesti er verið að kalla eftir inn í þessa vinnu? Væri ekki nær að við byrjuðum með þetta mál á réttum enda og reyndum að koma okkur saman um það hvað það er í þessari stjórnarskrá sem þarf að breyta? Hvað er langt síðan sú umræða hefur átt sér stað hér á Alþingi?

Við höfum alla tíð á þessu kjörtímabili verið að fjalla um það hvernig breyta eigi stjórnarskránni. Við höfum ekki átt í neinum viðræðum hér í þingsal um það hvaða atriði það eru sem þarf að breyta. Meira að segja sum þau atriði sem tillögur stjórnlagaráðs fjalla um eru ekkert endilega þau sem hvað hæst hefur borið í opinberri umræðu þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá.

Ég vil ítreka þá afstöðu sjálfstæðismanna að þetta mál sé vanbúið, að það sé ekki tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og það liggur fyrir, að það sé skylda þingsins að undirbúa málið miklu betur og koma sér saman um hverju eigi að breyta áður en farið er í ómarkvissa þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar tillögur.

Þá ætla ég að láta liggja milli hluta, á þeim afskaplega stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar, þær spurningar sem hugmyndin er að beina til þjóðarinnar til viðbótar við þá grundvallarspurningu sem mér skilst nú á formanni nefndarinnar að sé hugmyndafræðileg spurning.

Málið er hreinlega ekki tilbúið. Það er ekki tilbúið. Við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu er ekki skynsamlegt að halda áfram með þetta mál í þeim búningi sem það er. Það er ekki skynsamlegt að gera það. Ég leggst alfarið gegn því.