140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að hv. þingmaðurinn sé ósáttur við þetta. Það hefur verið alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað fylgja því ferli sem þetta mál hefur verið í. Ég verð að taka því, það er bara svoleiðis. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í minni hluta hér og ræður ekki. Þetta er því svona.

Einhvern tímann í febrúar blasti við mér að það væri alveg sama hvað talað yrði mikið um þessar tillögur í nefndinni, ekki væri vilji til að ræða þær heldur bara til að breyta þeim.

Það er alveg ljóst að stjórnlagaráð fékk það umboð að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá og þær liggja fyrir. Í þeim geta vel verið einhver lagatæknileg efni sem þarf að laga. Það getur vel verið að eitt reki sig á annars horn. Þess vegna er verið að fá sérfræðinga til að leita eftir því. Þingmaðurinn veit jafn vel og ég að það var reynt að fara þessa leið í vetur. Lagastofnun Háskólans vildi ekki verða við því. Það er mjög einfalt mál. Nú höfum við hins vegar fengið fært fólk sem er tilbúið að taka að sér þetta verkefni. Það er ekki allt sammála því sem stendur í þessu plaggi, ég fer ekkert ofan af því, en þannig er bara lífið. Nú ætlar þetta fólk að taka þetta mikla verk að sér. Ég held að við ættum bara öll að fagna því en ekki agnúast alltaf út í alla hluti.