140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ekki bara lagatæknileg atriði sem gerðar hafa verið athugasemdir við í tillögum stjórnlagaráðs.

Við getum líka velt fyrir okkur: Hvað eru lagatæknileg atriði? Hvers eðlis eru lagatæknileg atriði? Hversu mikla þýðingu hafa þau þegar við erum að tala um lagasetningu?

Við skulum ekki gleyma því að stjórnarskipunarlög eru lög í landinu. Það þarf að dæma eftir þeim. Þau þurfa að vera þess eðlis að það sé hægt. Lagatæknileg atriði eru því ekki eitthvað sem við getum bara skautað léttilega yfir.

Í umræðum sem þó hafa verið um þessi mál hafa komið miklar efnislegar athugasemdir við einstakar greinar í þessari tillögu. Til dæmis minnist ég umræðna um umhverfismál í stjórnlagaráðstillögunum. Það komu gestir fyrir nefndina, eins og hv. þingmaður man eftir, með margs konar athugasemdir.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli — ég tel það skyldu mína sem þingmanns á Alþingi að benda á það í jafnmikilvægu máli og stjórnarskipunarlögin eru ef menn vanda sig ekki nógu mikið við það verk, sem mér finnst ekki hafa verið gert í þessu máli.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann, því að hún nefndi að Lagastofnun hefði ekki viljað taka málið að sér í vetur, hvort hún vilji greina frá því af hverju Lagastofnun taldi sér ekki fært að taka þetta mál að sér eins og beðið var um.