140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:23]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan tel ég að líta eigi til allra þeirra breytingartillagna sem hafa verið lagðar til þegar kemur að umræðu um breytingu á stjórnarskránni. Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að þegar við ræðum breytingar á stjórnarskránni eigum við að hafa stjórnarskrána til viðmiðunar, þá eigi hún að vera það plagg sem við erum faktískt að tala um að breyta. Það er grundvallarafstaða mín. Við eigum fyrst að koma okkur saman um hvað það er í stjórnarskrá lýðveldisins sem þarf að breyta og síðan að takast á um það hvernig eigi að gera það.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, því að ég held að það sé hollt fyrir þingmenn að velta því fyrir sér, að í nágrannalöndunum sem hv. stjórnarþingmenn vilja oft líta til, sérstaklega til annarra Norðurlandaþjóða, þá leggja menn sig mjög fram við að ná þeirri samstöðu sem þarf. Það getur tekið tíma, og ég segi: Hvað er að því þótt það taki einhvern tíma ef niðurstaðan er góð? Hvað er að því að menn taki rökræðuna á það plan að það leiði til niðurstöðu sem verður til þess að skapa einhverja sátt og (Forseti hringir.) einhverja skynsemi frekar en að fara alltaf fram í ágreiningi eins og hér er gert?