140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:29]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel tilgangslaust að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu sem stendur til að breyta. Ég hef aldrei skilið þá hugmynd að gera það. Á fyrri stigum málsins stóð ekki til að fá lögfræðinga til að fara yfir þær tillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur nú ákveðið að gera. Ég held að það sé ágætt að halda því til haga að hefði verið leitað samninga við Lagastofnun væri sú vinna komin vel á veg rétt eins og hv. þingmaður nefndi. En eftir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að fá þessa lögfræðinga til verksins vil ég ítreka það og segi aftur, virðulegi forseti, að auðvitað fagna ég því að það sé gert. Við höfum talað um það mjög lengi að það sé nauðsynlegt. Ég hefði hins vegar viljað að þeir hefðu rýmra umboð þannig að ég segi það hreint út. Og þá finnst mér raunar alveg óskiljanlegt að á sama tíma og þetta er gert ætli meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að halda sig við það að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í miðju ferlinu. Mér finnst það óskynsamlegt og ég held þetta sé í raun og veru algjörlega óljóst. Ég spái því reyndar að það komi mjög (Forseti hringir.) lítið út úr því.