140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar erum við þm. hv. Ólöf Nordal algjörlega sammála. Þarna virðist eingöngu verið að uppfylla kröfur Hreyfingarinnar um að eitthvað af þessu skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sammála þingmanninum um að það var orðið tímabært að fá sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og til dæmis auðlinda- og umhverfisrétti til að fara yfir tillögurnar sem stjórnlagaráð, sem kosið var af Alþingi, skilaði til Alþingis, vegna þess að á nefndarfundum í allan heila vetur var bara verið að taka á móti gestum í viðtöl og ekki verið að vinna neitt í málinu. Þannig að á þessum þingvetri hefur tapast mikill tími í þessu máli.

Það er því alveg hreint með ólíkindum að þessari þjóðaratkvæðagreiðsluhugmynd skuli vera haldið til streitu. Ég spyr þingmanninn: Segjum sem svo að það verði bara 10% þjóðarinnar sem taka þátt, kosningarbærra manna, því að í sumar göngum við í gegnum forsetakosningar, hvað er þá að marka þá skoðanakönnun í ljósi þess að þetta er (Forseti hringir.) ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla? Er þetta ekki hrein peningasóun á ríkisfé?