140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:33]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það á umræðunni eins og hún er að hefjast hér aftur í seinni hálfleik að það hefur lítið breyst frá því að við vorum að ræða fyrr í vor, a.m.k. í málflutningi minni hlutans. Nú hefur hann að vísu mestar áhyggjur af því að það verði léleg þátttaka í kosningum í haust, sami minni hluti og barðist gegn því að farið yrði í kosningar samhliða forsetakosningum til að tryggja að það að yrði hér rífleg kosningaþátttaka.

Ég spyr hv. þm. Ólöfu Nordal, sem talaði mikið um að þetta væri svo flókið og illskiljanlegt — ég vil gjarnan fá nánari skýringar á því hvað er flókið og illskiljanlegt í því að þjóðin fái að segja álit sitt í þessum efnum, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það liggur fyrir frá því að við vorum í umræðunni í mars og apríl skoðanakönnun þar sem kemur fram með skýrum hætti að stærsti hluti þjóðarinnar vill mjög gjarnan fá að segja álit sitt á þeim lykilatriðum sem eru í tillögu að nýrri stjórnarskrá: Hvers vegna er Sjálfstæðisflokkurinn að berjast sérstaklega gegn því að þjóðin, stærsti hluti þjóðarinnar fái að segja sína meiningu í þessum efnum?