140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er mjög tíðrætt um skoðanakönnun þar sem spurt var um afstöðu þjóðarinnar til þess hvort þessar tillögur ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hlustar ekki eftir því. Það vill svo til að Sjálfstæðisflokkurinn hagar afstöðu sinni ekki eftir niðurstöðu skoðanakönnunar. Það er bara þannig. Það er eindregin skoðun okkar að þegar kemur að stjórnarskránni þurfi að vanda sérstaklega til verka og það er líka eindregin skoðun okkar að efnisleg umræða þurfi að fara fram áður en menn hlaupa af stað í þetta eins og hér er lagt til.

Mér finnst það eiginlega segja meira um málflutning þingmannsins en nokkuð annað þegar hann fer að benda mér á skoðanakannanir um þessi grundvallarmál og heldur að það muni breyta afstöðu minni í því hvernig haldið er á þessu máli. Það er mikill grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanni ef hann telur að málið sé í mínum huga svo lítilsvert fyrir mig sjálfa að einhver niðurstaða í skoðanakönnun breyti grundvallarafstöðu minni í málinu. Það er algjörlega fjarstæðukennt.