140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í þessari umræðu að fella gildisdóma um vinnu stjórnlagaráðs. Ég er þeirrar skoðunar að það sem kom út úr starfi stjórnlagaráðs hafi ekki verið fullbúinn stjórnarskrártexti. Ég er gagnrýninn, efnislega, á marga þætti þar. Í öðrum tilvikum eru athugasemdir mínar kannski fyrst og fremst á þá leið að þar sé um að ræða óskýr ákvæði, ákvæði sem fela í sér mjög almennar stefnuyfirlýsingar sem erfitt verði að framkvæma o.s.frv. Við vitum að starfstími stjórnlagaráðs var takmarkaður þannig að auðvitað var óraunhæft að reikna með því að út úr starfi þess kæmu fullbúnar stjórnarskrártillögur.

Með þessu er ég, held ég, ekki að kasta neinni rýrð á þá vinnu eða umræður sem þar fóru fram. Þær voru ágætar svo langt sem þær náðu. Í tillögum stjórnlagaráðs eru ýmsar hugmyndir sem ég held að full ástæða sé til að vinna miklu nánar með og geta leitt til góðra breytinga á stjórnarskránni. Ég er sannfærður um að í þessum tillögum og í þeim umræðum sem áttu sér stað í stjórnlagaráði er efniviður í góðar breytingar á stjórnarskránni að mörgu leyti. Hins vegar er algjörlega ótímabært að mínu mati, og þar erum við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sammála, að fara með þessar tillögur, sem eru í vinnsluferli, miðju vinnsluferli, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vilji menn efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á einhverju stigi málsins er eðlilegast að það sé gert þegar fyrir liggja endanlegar tillögur. Það er auðvitað eðli (Forseti hringir.) málsins samkvæmt eðlilegasta niðurstaðan. Þá eru valkostir kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu eins skýrir og kostur er.