140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hafði rétt fyrir sér vegna þess að ég var komin þarna af stað með það að fyrstu tvær spurningarnar væru úr kosningastefnuskrá Vinstri grænna. Næstu tvær spurningar eru frá Samfylkingunni varðandi persónukjör og að atkvæði kjósenda verði alls staðar jafnt og svo fékk Hreyfingin að skjóta inn síðustu spurningunni varðandi það að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta liggur hérna alveg skýrt fyrir og maður þarf ekki að lesa lengi stefnuskrá flokkanna til að sjá hvað er hér í gangi. Þess vegna spyr ég þingmanninn: Er ekki alveg fáheyrt og fáránlegt að þessar tillögur séu lagðar fram í nafni þess að verið sé að kjósa um einhverjar tillögur eða niðurstöðu þeirrar vinnu sem stjórnlagaráð stóð fyrir? Hér er verið að snúa þessu upp í pólitískan leik, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, skoðanakönnun á meðal þjóðarinnar í október og á sama tíma á að vera hér starfandi lögfræðinganefnd (Forseti hringir.) í sumar sem á að fara yfir þessar sömu tillögur þannig að ef þetta verður samþykkt núna verður það orðið algjörlega úrelt í október þegar þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram.