140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt hluti af vandanum, samhengi hlutanna. Þegar verið er að skrifa stjórnarskrá þarf að vera ákveðið samhengi í þeirri hugsun sem þar er að baki. Eins og hv. þingmaður er að nefna þá er ákveðið samhengi fólgið í því hvernig við höfum stillt af atkvæðaréttinn í landinu.

Ég er þeirrar skoðunar að atkvæði þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafi of lítið vægi og þróunin hefur verið í þá átt að auka það. Hvar nákvæmlega sá punktur liggur þar sem við getum sagt: Heyrðu, þetta er það fyrirkomulag sem við viljum búa við til langs tíma, ég skal ekki segja um það. Ég minni þó á að í því merka lýðræðisríki í Bandaríkjunum er það fyrirkomulag sem menn þekkja varðandi þá sem búa í höfuðborginni í Washington og stöðu þeirra. Það er því ekkert sjálfgefið í þessu en það er þetta samhengi í stjórnarskránni sem þarf að vera. Það eru því ágæt rök sem hv. þingmaður hefur flutt fyrir því að þegar spurt er um vægi atkvæða verði um leið spurt um þá þætti sem þingmaðurinn nefnir.

Ég ítreka enn og aftur hvað varðar persónukjörið, þ.e. að spurt sé hvort menn vilji hafa það í meiri mæli, sé allt of opið, opnara en hægt er að sætta sig við.