140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði ekki talið skynsamlegt að leggja það plagg sem stjórnlagaráðið skilaði af sér óbreytt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel reyndar að á því séu svo veigamiklir gallar að miklu betur þurfi að fara yfir það. Þingið hefur það hlutverk að marka stjórnarskrána og vitaskuld gerum við okkur öll auðvitað grein fyrir því að sú vinna sem unnin var af stjórnlagaráðinu hlýtur að koma inn í þá endurskoðun. En ég hefði ekki talið skynsamlegt að leggja plaggið óbreytt fyrir þjóðina.

Hins vegar felur þessi nálgun í sér eða hún opnar a.m.k. þann möguleika að leiða til verulegra breytinga á ýmsum þáttum sem koma fram í stjórnlagaráðstillögunum ef einhverjar af þessum tillögum verða samþykktar eða þeim verður synjað. Við vitum ekki hvernig það verður en útkoman mun væntanlega hafa efnisleg áhrif á afstöðu Alþingis í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir því að til þess sé leikurinn gerður, (Forseti hringir.) að leita ráðgjafar þjóðarinnar. Það er því augljóst að þetta mun hafa efnisleg áhrif á það (Forseti hringir.) með hvaða hætti ný stjórnarskrá verður að lokum lögð fyrir þjóðina.