140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það svar sem ég var að sækjast eftir kom einmitt fram, að það eru þingmenn einir sem geta breytt stjórnarskrá. Hér í umræðum hefur komið fram mikil meðvirkni með tillögum stjórnlagaráðs í þá veru að það sem skilað var til Alþingis væri stórisannleikur. Svo kemur í ljós þegar fræðimenn koma að þessari vinnu að tillögurnar eru algerlega ófullburða og stangast oft á tíðum við önnur lög, núgildandi stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Þetta var því vitavonlaust ferli frá upphafi en hæstv. forsætisráðherra hefur tekist að koma þessu í gegn með kostnaði upp á hátt í 1.000 millj. kr., og heldur áfram með málið ofan í skurð. Nú heitir þetta að hugmyndafræði tillagnanna skuli koma fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. En, virðulegi forseti, búið er að blanda pólitískum spurningum upp á fimm liði í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hefði ekki dugað að spyrja einungis að tölulið eitt til að fá fram þessa hugmyndafræði?